Gríðarlegt magn beina hafa fundist innst í dimmum helli í Suður-Afríku og eru þau hugsanlega leifar áður óþekktra skyldmenna nútímamannsins. Nýja tegundin hefur verið nefnd Homo naledi. Frá þessu er meðal annars greint á vef The Guardian. Tímaritið National Geographic hafði fundinn til umfjöllunar í nýjasta hefti sínu.
Fornleifafræðingarnir þurftu að þröngva sér í gegnum þröngar sprungur til þess að komast að steingervingunum. Alls fundust meira en 1.500 stykki af beinum sem hafa tilheyrt í það minnsta 15 einstaklingum. Leifarnar eru af kornabarni, mjög gömlum einstaklingi og táningum. Þúsundir fleiri beina eru í hellinum, undir þunnu lagi af mold sem þekur hellisgólfið.
Ekki hefur verið áætlað hversu gömul beinin eru en ljóst er að þau eru af fornum ættingja homo sapiens. Nafn nýju tegundarinnar homo naledi er dregið af nafni hellisins, „Hellis rísandi stjörnu“ (e. Rising Star cave) en á sótó þýðir „naledi“ einfaldlega „stjarna“.
Höfuðkúpa Homo naledi borin saman við höfuðkúpu Homo sapiens.
Ekki eru allir sérfræðingar í vísindasamfélaginu sannfærðir um að hér sé um mannlega veru að ræða, í það minnsta segja þeir ekki hægt að fullyrða um það út frá vísbendingunum sem þegar hafa verið rannsakaðar. Beinin líkist frekar forvera homo sapiens, Homo erectus, sem bjuggu þarna í sunnanverðri Afríku fyrir 1,5 milljón árum síðan.
Lee Berger, fornmannfræðingur sem stýrði rannsókninni, segir þessa nýju tegund hafa verið smávaxna, haft lítinn heila en haft langa leggi og verið kjánalega. „Við getum komið þessari tegund fyrir í ættartréi mannskeppnunar, sem er mjög merkilegt,“ segir Berger. Karlar af tegund Homo naledi kunna að hafa verið um 150 sentimetrar á hæð og konur aðeins minni.