Vextir á námslánum hjá Framtíðinni, nýstofnuðum námslánasjóði á vegum fjármálafyrirtækisins Gamma, eru mun hærri en hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, LÍN. Hjá Framtíðinni er hægt að velja um tvennskonar lánaform, ýmist óverðtryggða 8,75% breytilega vexti eða verðtryggða 6,45% vexti. Vextir á lánum LÍN eru 1% verðtryggðir. Námsmenn ættu því fyrst að leita fjármögnunar þar, og eru þeir hvattir til þess á heimasíðu Framtíðarinnar.
Vextir | Í námi | Eftir námslok |
---|---|---|
Óverðtryggðir breytilegir vextir | 9,75% | 8,75% |
Verðtryggðir fastir vextir | 7,45% | 6,45% |
„Vextirnir á lánum Framtíðarinnar ráðast af kostnaði við að fjármagna lánin. Vextirnir eru hærri en vextir lána LÍN, það liggur fyrir, en ef litið er til annars konar lánsviðskipta þar sem vextir ráðast á markaði finnst mér þeir vera sanngjarnir, sérstaklega í ljósi þess að ekki er krafist ábyrgðarmanna né veða,“ segir Hlíf Sturludóttir, stjórnarformaður sjóðsins, í skriflegu svari, spurð um hvað ákvarði lánakjör hjá Framtíðinni og hvort hún telji vextina vera háa. Hlíf svaraði nokkrum spurningum Kjarnans skriflega.
Framtíðin námslánasjóður tók til starfa í dag. Hámarkslán sem námsmaður getur tekið hjá sjóðinum er þrettán milljónir og endurgreiðslutíminn, sem hefst einu ári eftir að námi lýkur, er tólf ár. Fram kom í tilkynningu frá sjóðinum að hann verður í fyrstu fjármagnaður í gegnum skuldabréfasjóði í stýringu Gamma en stefnt er að því að fjármagna hann með útgáfu skuldabréfa.
Fá greitt óháð árangri
Íslenskir námsmenn þekkja vel þau skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að fá greidd út námslán frá LÍN. Sýna þarf fram á námsárangur og eru lánin því greidd eftir að önn lýkur og einkunnir liggja fyrir. Skilyrði Framtíðarinnar eru ekki jafn ströng, en námsmenn eru þó beðnir um að skila inn upplýsingum um námsframvindu. Þegar sótt er um lán þarf auk þess að skila inn gögnum svo hægt sé að framkvæmda greiðslumat á umsækjanda.
„Framfærsla er greidd út mánaðarlega og upphæðir eru ekki tengdar einingafjölda. Námsmaður sem fær t.d. samþykkt lán á haustönn fær lánið greitt út áður en niðurstöður jólaprófa liggja fyrir. Við biðjum námsmenn hins vegar um að skila inn upplýsingum um námsframvindu áður en við hefjum útgreiðslur á vorönn, ef sótt var um fyrir árið í heild sinni,“ segir Hlíf.
Skapa hvata til að klára námið
Athygli vekur að lánakjör hjá Framtíðinni eru lakari þegar lántakinn er enn í námi, en vextirnir lækka um eina prósentu þegar námi lýkur. Hlíf segir þetta gert til þess að skapa hvata. „Við vildum skapa hvata fyrir námsmenn að klára prófgráðuna með því að lækka vexti við námslok. Eftir það tekur við 12 mánaða greiðsluhlé þar til endurgreiðslur hefjast. Endurgreiðslutímabil er 12 ár og þá gilda lægri vextirnir,“ segir hún.
Í tilkynningu um stofnun sjóðsins í dag sagði að námslán Framtíðarinnar væru í boði fyrir alla námsmenn. „Hér er um viðbótarvalkost að ræða fyrir þá sem þurfa að fjármagna kostnaðarsamt nám, til dæmis erlendis, eða hafa hug á að mennta sig frekar eftir nokkur ár á vinnumarkaði eða meðfram vinnu,“ sagði í tilkynningunni. Haft var eftir Hlíf að stofnun sjóðsns fjölgi möguleikum námsmanna til að kosta nám sitt. „Það er til hagsbóta fyrir einstaklingana sjálfa að fjárfesta í menntun og um leið samfélagið allt enda eykst samkeppnishæfni Íslands með aukinni menntun,“ sagði hún.
Frétt Kjarnans um stofnun sjóðsins.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 19. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.