Þegar Esben Lunde Larsen, sem var í síðustu viku skipaður nýr ráðherra menntunar og vísinda í Danmörku, var spurður af því í viðtali við Jyllands-Posten í síðustu viku hvort maðurinn væri kominn af öpum svaraði hann: „Ég held að það sé skapandi guð að baki því“. Hann sagðist hins vegar ekki hafa hugsað mikið út í það hvernig guð hafi farið að því að skapa manninn.
Larsen sagðist einnig vera þeirrar skoðunar að guð hefði skapað flest allt annað sem til er í heiminum. „Hvernig það var búið til er skýrt annars vegar í biblíunni og hins vegar með vísindum,“ sagði Larsen.
Ummælin hafa valdið miklu fjaðrafoki í Danmörku og margir gagnrýnendur benda á að Larsen muni meðal annars hafa yfirumsjón með rannsóknum, vísindum og menntun. Það sé ótækt að maður sem hafni vísindalegum skýringum á tilurð mannsins og heimsins alls sinni slíku starfi. Samfélagsmiðlar hafa bókstaflega logað vegna málsins. Larsen, sem er frá svæði nálægt Rinkøbing, sem oft er nefnt danska biblíubeltið, er strangtrúaður.
Í umfjöllun Politiken um málið hafa viðmælendur bent á að ráðherra vísinda geti ekki aðhyllst sköpunarkenninguna. Í því felist svo mikil þversögn að hún sé ekki boðleg. Kristeligt Dagblad tekur hins vegar upp hanskann fyrir Larsen og segir gagnrýnina á hann vera ómaklega. Hún sýni fram á mikla vanþekkingu gagnrýnenda á bæði mótmælendatrú og hinu vísindalega samfélagi.
Sýnd mynd af Adam og Evu og apa
Í gær mætti Larsen svo í sjónvarpsviðtal hjá danska ríkisútvarpinu, DR. Þar sýndi spyrillinn honum mynd af Adam og Evu annars vegar og apa hins vegar og bað ráðherrann um að segja áhorfendum hvor myndin væri af forfeðrum mannsins. Larsen lenti í töluverðum vandræðum með að svara spurningunni með skýrum hætti. Hægt er að sjá upptöku af viðtalinu hér.
Larsen hefur svarað fyrir ásakanirnar víðar undanfarna daga. Í skriflegu svari til vefsins videnskab.dk, sem birt var í gær, segist hann aldrei hafa litið á sig sem sköpunarsinna. Þar segir hann að hafi einhver hafi þá skoðun að guð hafi skapað heiminn þá sé það trú, ekki vísindi. Hann segir þróun heimsins frá stóra hvelli hins vegar vera vísindalega staðreynd.
Vill kalla svart fólk "negra"
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Larsen lendir í vandræðum fyrir ummæli sín í viðtölum við Jyllands-Posten. Í janúar 2014 sagði hann við blaðið að hann vildi kalla svart fólk „negra“. Það væri orð sem hann teldi að næði réttilega yfir kynþátt þeirra sem væru svartir á hörund. Auk þess vildi Larsen með þessu mótmæla því sem hann kallaði pólítíska rétthugsun.
Larsen vildi hins vegar ekki svara því í viðtalinu hvort hann myndi tala um Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, sem fyrsta „negrann“ til að gegna því starfi.
Sökum þess hversu umdeilur Larsen er þá vakti það töluverða athygli þegar Lars Løkke Rasmussen, nýr forsætisráðherra Danmerkur, ákvað að gera hann að ráðherra í nýrri minnihlutastjórn sinni í lok júní. Sérstaklega þar sem stjórn hans er veik og þarf að treysta mjög á stuðning annarra flokka á þingi við að koma stefnumálum sínum í gegn.