Nýr þjóðfáni Nýja Sjálands verður hugsanlega dreginn að húni á næsta ári því Nýsjálenska þingið er búið að skipuleggja tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um hver nýji fáninn verður og hvort skipta eigi 113 ára gömlum nýlendufánanum út.
Sérstök fánanefnd nýsjálenska þingsins birti svo í gær 40 tillögur af hönnun nýs fána. Að endingu verður aðeins kosið um fjóra valkosti. Allar tillögurnar nema ein hafa það sameiginlegt að breski fáninn, Union Jack, er ekki lengur ráðandi tákn. Tákn breska heimsveldisins er horfið en stjörnurnar fjórar virðast enn vinsælar meðal hönnuða. Þær tákna Suðurkrossinn, ráðandi stjörnumerki á himni suðurhvels jarðar.
Tillögurnar 40 voru valdar úr meira en 10.000 tillögum frá almenningi. John Borrows, yfirmaður verkefnisins, hefur sagt að hugsanlegur nýr fáni þurfi óaðyggjandi að vera frá Nýja Sjálandi, undirstrika þjóðina sem framsækna og samstæða þjóð í tenglsum við náttúruna. Fáninn þurfi einnig að hafa rætur í fortíðinni og vera tákn framtíðar.
„Það er mikilvægt að svona hönnun sé tímalaus, geti virkað við mismunandi aðstæður, sé einföld, laus við óþarfa, í jafnvægi og hafi skarpar línur,“ sagði Burrows.
Það er hins vegar augjóst hvaðan hönnuðirnir hafa fundið táknin til að raða í tillögur sínar. Mest áberandi er silfraði burkninn sem er tákn helstu landsliða Nýsjálendinga, hvort sem það er netbolti, ruðningur eða krikket. Burkna er líka að finna í skjaldarmerki Nýja Sjálands, á myntum og í merkjum herdeilda. Svarti liturinn, sem er ráðandi í mörgum hönnunum, er ráðandi litur helstu landsliða.
Silfraði burkninn, hvítt burknalauf á svörtum grunni, hefur þess vegna hlotið stöðu óopinbers þjóðfána í Nýja Sjálandi. Þær tillögur sem skarta burknanum eru jafnframt vinsælastar meðal almennings. Árið 2004 var kosið um nýjan fána á vegum dagblaðs og bar Silfraði burkninn á rauðum og bláum grunni, sigur úr býtum. Sú hönnun skartaði einnig Suðurkrossinum.
Tillögur að nýjum þjóðfána Nýja Sjálands. Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.
Fáninn er of líkur þeim ástralska
John Key, forsætisráðherra Nýja Sjálands, hefur lengi þrýst á það að þjóðin velji sér nýjan fána. Hann vill að silfraður burkni prýði fánann, eins og meirihluti þjóðarinnar. Í skoðanakönnunum eru Nýsjálendingar hins vegar alls ekki á því að það þurfi að skipta út fánanum. Í skoðannakönnun sem New Zealand Herald gerði í apríl sögðust 70 prósent vera á móti fánabreytingunni.
Fánabreytingin er hins vegar ekki ný hugmynd. Hún hefur verið til umræðu síðan á áttunda áratug síðustu aldar. Helstu rök þeirra sem vilja breyta um fána eru að flaggið sé einflaldega of líkt ástralska fánanum. Nýsjálenskir ráðamenn hafa, til dæmis, oft þurft að sitja undir þjófána Ástralíu í opinberum heimsóknum til annarra landa.
Þá þykir það grafa undan sjálfstæði þjóðarinnar að breski fáninn skuli enn prýða þjóðfána Nýja Sjálands. Það var venjan að nýlendur bresku krúnunnar bæru sambandsfána Bretlands. Núgildandi þjóðfáni Nýja Sjálands er til dæmis síðan 1902 en þjóðin hlaut sjálfstæði í desember 1947.
Svo er það skortur á táknum frumbyggja Nýja Sjálands í fánanum. Ensk arfleið þjóðarinnar er öllu yfirsterkari í þjóðfánanum en engu púðri eytt í aðrar þjóðir landsins. Hugmyndir um að bæta við táknum Māori-þjóðarinnar í fánann voru fyrst settar fram í seinni heimstyrjöldinni. Nýja Sjáland er fjölþjóðlegt samfélag og helsta tákn landsins ætti að viðurkenna það. Í manntali árið 1961 var sýnt fram á að 92 prósent þjóðarinnar hefðu evrópska arfleifð. Árið 2013 var hlutfallið orðið 74 prósent.