Samkvæmt nýju manntali, sem Hagstofan fjallar um í dag, voru íbúar á Íslandi næstum því 10 þúsund færri í upphafi ársins 2021 en lesa hefur mátt út úr opinberum tölum til þessa.
Manntalið gefur til kynna að íbúar á landinu hafi verið 359.122 talsins 1. janúar 2021, en samkvæmt lögheimilisskráningum Þjóðskrár voru alls 368.791 manns með lögheimili á landinu á þeim tíma.
Í umfjöllun á vef Hagstofunnar segir að mestu muni um þá sem flytja af landi brott án þess að tilkynna búferlaflutninga, en samkvæmt þeim aðferðum sem Hagstofan nýtti við gerð manntalsins búa bjuggu um 7.700 manns erlendis þrátt fyrir að vera með íslenskt lögheimili.
Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur kallar þessar niðurstöður manntalsins „stórfrétt“ í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter í morgun og segir að þetta setji „allt tal um uppsafnaða íbúðaþörf í nýtt og breytt samhengi“.
Hér er stórfrétt. Við erum sirka 10.000 færri en áður var talið. Fjölgun frá 2011 14% en ekki 16% eins og tölur Þjóðskrár segja til um. Setur allt tal um uppsafnaða íbúðaþörf í nýtt og breytt samhengi. https://t.co/ToLCIQPHm4 pic.twitter.com/CFfXV9WtI6
— Konráð S. Guðjónsson (@konradgudjons) November 14, 2022
Stutt er síðan að Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar og félagsmálaráðherra, fjallaði um það í aðsendri grein á Vísi að mögulega væri íbúafjöldi landsins verulega ofmetinn í tölum Þjóðskrár, sem verið hafa grunnurinn að opinberri áætlanagerð, til dæmis í húsnæðismálum.
Fjölgar hlutfallslega mest á Suðurnesjum
Ekki hefur verið framkvæmt manntal á Íslandi síðan árið 2011. Þá voru íbúar 315.556 talsins og voru íbúar samkvæmt manntalinu þá metinn rúmlega fjórum þúsundum færri en samkvæmt tölum Þjóðskrár um lögheimilisskráningar.
Fjölgunin frá síðasta manntali nemur 13,8 prósentum. Mannfjöldi jókst í öllum landshlutum frá 2011 til 2021. Hlutfallsleg fjölgun var mest á Suðurnesjum, 28,2 prósent en fjölgunin þar nam 5.936 manns.
Næst kom Suðurland þar sem fjölgaði um 18,8 prósent eða 4.780 íbúa, og á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 30.381 íbúa, sem samsvarar 15,1 prósent fjölgun. Hlutfallsleg fjölgun var minnst á Norðurlandi vestra, en þar fjölgaði einungis um 40 manns eða 0,6 prósent og á Vestfjörðum þar sem fjölgunin nam 1,6 prósenti og 109 íbúar bættust við.
Samkvæmt manntalinu 2021 voru konur 49,0 prósent (176.067) og karlar 51 prósent (183.055) íbúa á Íslandi. Hlutfall kvenna hefur lækkað aðeins frá manntalinu 2011 þegar konur voru 49,9% mannfjöldans.