Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur beðið bandaríska þingið um samþykki fyrir hernaðaraðgerðum gegn Íslamska ríkinu. Þetta er í fyrsta sinn frá því að þingið kaus um Íraksstríðið árið 2002 sem þingið er beðið um samþykki fyrir hernaðaraðgerðum.
Samkvæmt tillögunni eru ekki takmörk á því hvar hægt væri að ráðast gegn Íslamska ríkinu en ekki væri hægt að ráðast í langtímaaðgerðir, heldur er tillagan takmörkuð við þriggja ára aðgerðir. Samkvæmt frétt New York Times um málið stendur til að forðast innrás og hernám, en hægt væri að ráðast í „takmarkaðan landhernað“ til viðbótar við loftárásir, sem Bandaríkin hófu gegn Íslamska ríkinu í fyrra.
Obama sendi þinginu bréf ásamt tillögunni þar sem fram kemur að hann hafi oft lýst yfir vilja sínum til að vinna með þinginu til að koma í gegn máli af þessu tagi með stuðningi þvert á flokka. Hann sagði að tillagan sem hann hefur nú sent heimili ekki stórtækar aðgerðir eða aðgerðir til langs tíma eins og ráðist var í í Írak og Afganistan, en að heimild þingsins myndi veita sveigjanleika til þess að ráðast í björgunaraðgerðir og sértækar árásir.
Þessi frétt er í vinnslu.