Oddný Harðardóttir þingmaður, þingflokksformaður og fyrrverandi fjármálaráðherra leiðir lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi til kosninga í haust. Í öðru sæti listans verður Viktor Stefán Pálsson, sviðsstjóri hjá Matvælastofnun og formaður Ungmennafélags Selfoss og þriðja sætið skipar Guðný Birna Guðmundsdóttir hjúkrunarstjóri heimahjúkrunar hjá Reykjavíkurborg og bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samfylkingunni, en samkvæmt henni var listi flokksins samþykktur með „yfirgnæfandi meirihluta“ á fundi kjördæmisráðs í Suðurkjördæmi í kvöld.
Oddvitinn Oddný, sem er eini þingmaður flokksins í kjördæminu, segist leiða listann með stolti inn í kosningar haustsins. „Það eru fjölmörg tækifæri framundan í uppbyggingu eftir heimsfaraldur og sýn okkar er skýr í þeim efnum. Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafa brugðist og ekki staðið með fólkinu í kjördæminu sem bera þyngstu byrðarnar í heimsfaraldrinum. Nú þurfum við allar hendur á dekk svo ný ríkisstjórn eftir kosningar verði leidd af jafnaðarmönnum,” er haft eftir henni í tilkynningu flokksins.
Eins og Kjarninn fjallaði um nýlega létu nokkrir, sem höfðu hug á að taka eitt af efstu sætu listans í Suðurkjördæmi, óánægju sína í ljós þegar þeim var ekki boðið að setjast í umrædd sæti.
Páll Valur Björnsson fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar og núverandi varaþingmaður Samfylkingar var einn þeirra „Það verður að segjast eins og er að þessi aðferð Samfylkingarinnar við að raða upp á lista er eiginlega alveg glötuð,“ skrifaði Páll Valur á Facebook.
Njörður Sigurðsson, sem skipaði annað sæti á listanum 2017, fékk að eigin sögn boð um að vera í fjórða sæti á lista og hafnaði því. Einnig lýsti Ástþór Jón Ragnheiðarson, sem sóst hafði eftir 2.-3. sæti á lista flokksins, yfir óánægju með að vera boðið sæti mun neðar á lista.
Samfylkingin fékk 9,6 prósent atkvæða í Suðurkjördæmi í síðustu kosningum og einn þingmann kjörinn, sem áður segir.
Efstu sæti á lista Samfylkingar í Suðurkjördæmi
- Oddný G. Harðardóttir, Suðurnesjabær - Þingmaður Samfylkingarinnar, þingflokksformaður, kennari, fyrrverandi bæjarstjóri í Garði og fyrrverandi fjármálaráðherra.
- Viktor Stefán Pálsson, Árborg - Sviðsstjóri hjá Matvælastofnun og formaður Ungmennafélags Selfoss
- Guðný Birna Guðmundsdóttir, Reykjanesbær - Hjúkrunarstjóri heimahjúkrunar hjá Reykjavíkurborg, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, hjúkrunarfræðingur og MBA nemi
- Inger Erla Thomsen, Grímsnes - Stjórnmálafræðinemi
- Friðjón Einarsson, Reykjanesbær - Formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar
- Anton Örn Eggertsson, Vestmannaeyjar - Meðeigandi í Pítsugerðinni og yfirkokkur hjá veitingastaðnum Gott
- Margrét Sturlaugsdóttir, Reykjanesbær - Atvinnulaus fyrrverandi flugfreyja Icelandair
- Davíð Kristjánsson, Árborg - Vélvirki hjá Veitum