Betra væri að fjölga kjördæmum landsins í stað þess að fækka þeim, að mati oddvita þriggja ríkisstjórnarflokkanna í Norðausturkjördæmi. Þetta kemur fram í svörum oddvitanna við spurningum Austurfréttar, sem birt voru fyrr í dag.
Samkvæmt Austurfrétt er nú raunverulegur möguleiki á að enginn Austfirðingur verði á Alþingi á næsta kjörtímabili, ef tekið er mið af framboðslistum stjórnmálaflokkanna í Norðausturkjördæmi og þeim skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið í vor. Þetta yrði í fyrsta skiptið sem slíkt gerðist í lýðveldissögunni.
Líkt og Kjarninn greindi frá sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fyrr í vor að fyrir sitt leyti kæmi það til greina að fjölga kjördæmum í landsbyggðunum. Í samtali við Vísi nefndi Bjarni sérstaklega að hægt væri landsbyggðarkjördæmum í tvennt, svo að fólk fengi meiri nálægð við sína fulltrúa á þingi.
Fyrr í dag birti svo Austurfrétt svar oddvita Norðausturkjördæmis um stefnu þeirra varðandi kjördæmaskipan landsins, en samkvæmt þeim vilja oddvitar ríkisstjórnarinnar fjölga kjördæmum, á meðan oddvitar Samfylkingarinnar og Viðreisnar vilja fækka þeim.
Njáll Trausti Friðbertsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, segir kjördæmin nú vera landfræðilega mjög stór og tekur undir orð Bjarna um að fjölgun þeirra myndi færa fulltrúum á þingi nær kjósendum sínum.
Óli Halldórsson, oddviti Vinstri grænna í kjördæminu, er sammála og segir farsælla að fjölga kjördæmum heldur en að fækka þeim svo að kjörnir fulltrúar hafi skýrt umboð frá kjósendum sínum um allt land. Ingibjörg Ólöf Isaksen, oddviti Framsóknar í kjördæminu er einnig sama sinnis.
Logi Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, segist hins vegar ekki vera viss um að það yrði gæfuspor að fjölga kjördæmum, þótt margt sé áhugavert við þá hugmynd. Samkvæmt honum eiga íbúar Norðausturkjördæmis margt sameiginlegt og hafa hagsmuni af því að sameina krafta sína á þingi.
Eiríkur Björn Björgvinsson, oddviti Viðreisnar í kjördæminu, segir að full ástæða sé til þess að endurskoða kjördæmaskipan landsins, en leggur áherslu á að efla sveitarstjórnarstigið til þess að koma meira valdi til íbúanna. Samkvæmt honum mun Viðreisn leggja lokahönd á stefnu sína í málinu á landsþingi flokksins í næsta mánuði.
Einar Brynjólfsson, oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi, segist ekki telja rétt að hrófla við kjördæmaskipan að sinni, þar sem aðstæður kjósenda séu misjafnar umhverfis landið og þarfir mjög ólíkar, þótt íbúarnir séu ekki margir. Hins vegar segir hann að landið ætti að verða eitt kjördæmi þegar landsbyggðirnar verða orðnar nokkuð sjálfbærar hvað þjónustu, menntun, atvinnu, samgöngur og heilbrigðismál varðar, en enn sé langt í það.
Uppfært kl. 15:32: Ummælum Einars Brynjólfssonar var bætt við.