Íslensk yfirvöld ættu að breyta iðnnámi, fjárfesta í vísisjóðum og gera styrki til rannsóknar- og þróunarstarfs aðgengilegri fyrir smærri fyrirtæki til þess að efla nýsköpun hér á landi. Einnig ættu þau að hækka kolefnisgjöld og láta þau ná til allra atvinnugreina til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta kemur fram í ítarlegri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um íslenskan efnahag, sem birt var í morgun.
Hugverkaiðnaðurinn lítill miðað við Norðurlöndin
Samkvæmt skýrslunni á Ísland mikið inni í nýsköpunarmálum, þrátt fyrir að vera nýjungagjarnt land. Sérstaklega mætti bæta hugverkaiðnaðinn í því samhengi, þar sem útflutningur á vörumerkjum og einkaleyfum innan þess geira sé lítill ef miðað er við hin Finnland, Svíþjóð, Noreg og Danmörku.
Stofnunin nefnir nokkrar ástæður sem gætu legið að baki því hvers vegna hugverkaiðnaðurinn sé ekki jafnstór hérlendis og á hinum Norðurlöndunum, líkt og smæð hagkerfisins, hátt vægi ferðaþjónustunnar eða of mikill fjöldi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
Markvissari styrkir, meiri fjárfesting og betri kennsla
Hins vegar segir hún að margt megi bæta hérlendis til þess að efla hugverkaiðnaðinn. Til dæmis væri hægt að gera niðurgreiðslur til rannsókna og þróunar markvissari, þannig að hún nái fyrst og fremst til ungra nýsköpunarfyrirtækja. Þar að auki er mikilvægt að efla fjárfestingu í vísisjóðum, sem OECD segir að sé enn tiltölulega lítil hérlendis, og byggja upp tengslanet fjárfesta.
Samkvæmt stofnuninni er breytinga einnig þörf innan menntakerfisins, en íslenskir kennarar eru minna undirbúnir en kennarar í öðrum OECD-ríkjum í að nota stafrænar lausnir. Stjórnvöld ættu líka að breyta iðnnámi og gera það almennara, svo það verði minna háð tæknibreytingum framtíðarinnar.
Mikil losun vegna álframleiðslu
Stofnunin beindi sjónum sínum einnig að loftslagsmálum, en samkvæmt henni mætti minnka losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis með mun markvissari hætti. Hún benti á að losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi væri vel yfir meðaltali OECD-ríkja þrátt fyrir að landið reiði sig langmest á græna orkugjafa, meðal annars vegna umfangsmikillar álframleiðslu.
Losunarheimildir í sjávarútvegi og landbúnaði
OECD telur að besta leiðin til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sé annað hvort með kolefnissköttum eða losunarheimildum. Samkvæmt skýrslunni eru kolefnisskattar hérlendis með þeim hæstu í aðildarríkjum OECD, en stofnunin segir að hækka megi þessa skatta hægt og örugglega í framtíðinni. Hún mælir einnig með því að kolefnisgjöld nái til sem flestra atvinnugreina hérlendis og segir að mögulega væri betra fyrir sjávarútveginn og landbúnaðinn að skiptast á losunarheimildum.