Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) býst við hægari efnahagsbata hér á landi í nýju þjóðhagsspánni sinni heldur en Seðlabankinn spáði í síðasta hefti Peningamála. Samkvæmt samtökunum verður Ísland hægast allra þróaðra ríkja í að endurheimta fyrri efnahagsstyrk.
Samtökin gera ráð fyrir að hagvöxtur hér á landi muni ná 2,8 prósentum í ár og 4,7 prósentum á næsta ári. Þetta er nokkurn veginn í takt við þjóðhagsspá Íslandsbanka, sem kom út í síðustu viku, en þar var gert ráð fyrir 2,7 prósenta hagvexti í ár og 4,9 prósenta vexti á næsta ári.
Seðlabankinn var þó nokkuð bjartsýnni í nýjasta hefti Peningamála, en þar bjóst bankinn við því að hagvöxturinn yrði yfir þremur prósentum í ár og yfir fimm prósentum á næsta ári. Mestu munar þar á einkaneyslunni, en Seðlabankinn gerir ráð fyrir að hann muni vaxa helmingi í ár heldur en Íslandsbanki og OECD.
Samkvæmt OECD er efnahagsviðspyrnan hér á landi bundin mörgum óvissuþáttum, þar sem ferðaþjónustan væri háð efnahagsástandinu á heimsvísu og sjávarútvegurinn væri viðkvæmur fyrir aflabresti.
Í spánni var sagt að ýmsar kerfisbreytingar gætu hjálpað til við að endurraða vinnuafli í arðbærar atvinnugreinar og stuðlað að hagvexti sem myndi gagnast öllum. Þá töldu samtökin einnig að aukin samkeppni í byggingariðnaðinum og ferðaþjónustunni, auk komu erlendra fyrirtækja með mikilli stærðarhagkvæmi, gæti hraðað fyrir tæknibreytingum og fjölbreytni í hagkerfinu. Einnig gæti bjögun á vinnumarkaði minnkað með auknu samstarfi háskólanna við atvinnulífið.