Talið er að 400 milljónir manna hafi horft á hnefaleikabardagann milli Floyd Mayweather og Manny Pacquiano í gær. Þessi „bardagi aldarinnar“ vakti mikla athygli og það fór svo að Floyd Mayweather sigraði, sem þýðir að hann hefur nú sigrað í 48 bardögum. Hann hefur aldrei tapað.
Fjölmiðlaathyglin í kringum bardagann var gríðarleg, enda hefur bardagans verið beðið í fimm ár, en athyglin var ekki öll jákvæð. Bardaginn varð fjölmörgum bandarískum fjölmiðlum tilefni til þess að rifja upp sögu Mayweather, sem er hæst launaði íþróttamaður í heiminum. Hann fékk til að mynda um 180 milljónir dala fyrir bardagann í gær.
Mayweather á sér mikla ofbeldissögu og hefur fengið á sig dóm fyrir að hafa beitt fyrrverandi konu sína ofbeldi fyrir framan börnin þeirra. Hann hótaði sonum sínum þegar þeir reyndu að stöðva ofbeldið. Dómurinn var þó vægur, hann var dæmdur í 90 daga fangelsi en fullnustu dómsins var frestað svo að hann gæti barist í hnefaleikabardaga í Las Vegas.
Fyrrverandi konan hans, Josie Harris, er móðir þriggja af fjórum börnum hans. Hún steig nýverið fram og sagði frá því að hnefaleikakappinn beitti hana líkamlegu ofbeldi í sex skipti, og lýsti einnig miklu andlegu ofbeldi. Alvarlegasta árásin var eftir að þau skildu, og það er sú árás sem hann var dæmdur í 90 daga fangelsið fyrir. Þá kom hann inn á heimili Harris og barna þeirra. Hún var sofandi þegar hann réðst á hana, kýldi og sparkaði í hana. Elsti sonur þeirra, Koraun, var tíu ára þegar þetta gerðist og hann læddist út úr húsinu og lét öryggisvörð vita, sem hringdi á lögregluna. Mæðginin sögðu sögu sína í USA Today, þar sem fram kom að Mayweather vilji ekki gangast við ofbeldinu þrátt fyrir að hafa játað fyrir dómi. „Hann er heigull,“ sagði sonurinn um pabba sinn.
Shantel Jackson var trúlofuð Mayweather eftir að hann skildi við Harris. Hún hefur líka kært hann fyrir líkamlegt og andlegt ofbeldi. Hún segir að hann hafi nánast haldið henni fanginni á heimili þeirra í Las Vegas. Hann hafi beint byssu að henni og hótað að skjóta hana.
New York Times er meðal þeirra fjölmiðla sem fjölluðu um ofbeldi Mayweather í aðdraganda bardagans. Í grein fjölmiðilsins kemur einnig fram að árið 2003 hafi hann kýlt tvær vinkonur Harris, játað og fengið skilorðsbundinn dóm. Þá eru einnig nokkur dæmi um að hann hafi beitt karlmenn ofbeldi og hótað þeim. Í eitt skipti braut hann kampavínsflösku á höfði manns.