Myndefni sem tekið var af hundi að glefsa í hross og var meðal þess sem vakti óhug hjá þjóðinni í myndbandi af illri meðferð á blóðmerum í fyrra var klippt til og samsett og „ýkir mjög þá starfsemi sem við erum vön og þekkjum“.
Þetta segir Sæunn Þórarinsdóttir, hrossabóndi á bænum Lágafelli í Austur-Landeyjum. Í myndbandinu hafi verið búið að klippa saman atvik sem áttu sér stað á bæ hennar á fleiri en einum degi „og allt í einu erum við í blóði,“ skrifar Sæunn í umsögn sinni um drög matvælaráðuneytisins að reglugerð um blóðtöku úr fylfullum hryssum.
Blóðmerahald hefur verið harðlega gagnrýnt eftir að myndbandið, sem þýsk dýraverndunarsamtök unnu, var birt í nóvember í fyrra. Hluti myndefnisins var tekinn að Lágafelli, m.a. þegar hundur glefsar í hross og maður sést slá til annars hests. Sæunn segir í umsögn sinni að hrossin hafi verið að „éta brauð sem við erum að henda til þeirra og hundarnir í keppni að éta það upp líka“.
Þrengingar og bindingar
Hross eru lifandi verur, skrifar hún, og fimm sinnum þyngri en venjulegur maður. „Það er því sitthvað sem gengur á ef að [hross] setja sig föst eða koma sér í vanda og þess vegna er mikilvægt að nýta allar mögulegar leiðir – þrengingar og bindingar – til að tryggja að þau fari sér ekki að voða í svona blóðtöku. Það er ekki gert af grimmd eða illsku manna – heldur þeim til varnar og til að auðvelda bæði skepnunni og mönnunum starfið sem fram fer.“
Bændum þyki ýmislegt annað „undarlegt“ í myndbandi dýraverndunarsamtakanna. Meðal annars sú gagnrýni að hundar séu látnir elta hrossin „og hanga í þeim“. Bendir hún máli sínu til stuðnings á nýlega frétt á RÚV um bónda á leið með fé sitt í sumarhaga. „Og á eftir fénu með mánaðargömul lömb hlupu Border Collie hundar og smöluðu fénu áfram af miklum móð og einmitt með glefsum ef ærnar og lömbin hikuðu.“ Þetta segir hún „eitthvað sem bændur þurfi að hafa sér til aðstoðar við vinnu sína ef illa gengur“.
Yfirlýstur veganisti
Sæunn segir um reglugerðardrögin, þar sem lagt er m.a. til að fækka þeim skiptum sem taka megi blóð úr hryssum á hverju ári úr átta í sex, að blóðmerahald sé unnið með leyfi Matvælastofnunar og undir eftirliti „færustu dýralækna“. Hún gagnrýnir harðlega dýraverndunarsamtök, sem séu „samtíningur manna og kvenna sem hafa yfirlýsta stefnu að koma í veg fyrir allt húsdýrahald og vilja predika í heiminum um lífsgæði grænkera“. Myndbandið hafi átt að sýna að blóðbændur væru dýraníðingar en sú sem taki flest viðtölin í því sé „yfirlýstur veganisti með það að markmiði að koma öllum heimsins dýrum í nauð til hjálpar“.
Bendir hún svo á son á bænum Lágafelli sem hafi lokið námi í Kvikmyndaskóla Íslands og segi auðvelt að „láta tala yfir og breyta inntaki myndarinnar sem er upphafið að þessu öllu“. Gera fólkið „sem sagt er níðast á dýrum að bjargvættum þeirra og láta dýrin tala.“ Nefnir hún þetta til að sýna fram á að vel geti verið að þannig hafi myndbandinu verið breytt.
Blóðmerahald hefur verið stundað að Lágafelli í fjörutíu ár, skrifar Sæunn. Þar eru haldin tvö hrossastóð. Að hennar sögn eru ekki allar hryssur til þess fallnar að gefa blóð og árlega felli blóðbændur stóran hóp af hryssum sem ekki nýtist til blóðtöku, bæði vegna skapgalla en einnig vegna þess að þær framleiða ekki það hormón sem Ísteka, fyrirtækið sem kaupir og vinnur blóðið, þarf í frjósemislyf sitt.
Ráfandi, drukknir menn
Sæunn segir blóðhrossastóðin rekin heim að bæ marga daga á ári og að stöðugt eftirlit sé haft með líðan dýranna og heilsufari. Hún gagnrýnir m.a. höfunda reglugerðardraganna vegna boðunar nýs ákvæðis um stærð stóðs sem koma megi til blóðtöku hverju sinni. Spyr hún hvort slíkar stærðartakmarkanir eigi einnig að gilda um hross sem rekin eru af fjalli í réttir á haustin eða standi í gerðum við hestaleigur. „Hve lengi mega þau hross standa úti við og í stressi í fjallréttum – hross sem sannarlega verða fyrir áfalli innan um hóp alla vega einstaklinga sem ráfa þar um drukknir jafnvel í leit að hrossum með hávaða og köllum?“
Þá segir hún að í tamningastöðvum séu hross lokuð inni næstum allan sólarhringinn. Þann stutta tíma sem þau fái að vera utandyra séu þau í gerðum og stundum rekin áfram af hundum eða fjórhjólum í svokölluðum „rekstrarhringjum“. Upp komi valdabarátta meðal ókunnugra hrossa, unghrossa í bland við eldri, sem geti haft slæmar afleiðingar. „Hryssur í blóðstóði eru þó alla vega vanar saman og kunna sig og eru kurteisar í flestu,“ skrifar Sæunn.
Flestir bændur, sama hvaða búgrein þeir stunda, „eru af lífi og sál að reyna að lifa af sem bændur“. Blóðmerahald sé einnig mikilvæg búgrein og að sjálfsögðu reyni bændur að hagnast á því, rétt eins og aðrir sem reki fyrirtæki.
Samkoma „böðla og bévítans glæpamanna“
„Bændur fella kýr, kálfa, ær og lömb, hross og folöld,“ skrifar Sæunn. Einn liður í baráttunni við að lifa sé blóðsala, „sem við sem bændur vissum bara ekki að væri glæpasamkoma fyrr en að umræða samfélagsins varð allt í einu á þá leið að þarna færu saman böðlar og bévítans glæpamenn; Ísteka, bændur og dýralæknar landsins.“
Hún segir gott að yfirfara og setja reglur en biður stjórnvöld að vara sig á því að þær verði íþyngjandi fyrir blóðbændur. Fyrst farið sé í þessa vinnu ætti að fjalla um allt hrossahald á landinu, ekki aðeins blóðmerahald.