Ólafur Ólafsson, sem hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsi í Al Thani-málinu svokallaða fyrr á þessu ári, segir að rannsókn sérstaks saksóknara á málinu hai ekki verið hlutlaus heldur hafi allt kapp verið lagt á að ná sakfellingu, að dómur Hæstaréttar hafi verið rangur og að hann hafi látið almenningsálitið stjórna niðurstöðu sinni að einhverju leyti. Hann segir tvo dómara sem felldu dóminn hafa verið vanhæfa til þess vegna vensla. Ólafur hefur bæði óskað eftir endurupptöku málsins fyrir endurupptökunefnd og kært það til Mannréttindadómstóls Evrópu. Hann segir það ömurlegt hlutskipti að sitja í fangelsi. Fjárhagsstaða hans sé hins vegar ágæt og óttast ekki að missa þau fyrirtæki sem hann á, meðal annars Samskip.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Ólaf sem Viðskiptablaðið birtir í dag.
Dómur féll í Al Thani-málinu þann 12. febrúar síðastliðinn. Þar voru þeir Ólafur, sem átti tæplega tíu prósent hlut í Kaupþingi fyrir fall hans, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, allir dæmdir sekir. Hreiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður fjögur ár, Ólafur og Magnús fjögur og hálft ár.
Al-Thani málið, sem er eitt umfangsmesta efnahagsbrotamál sem komið hefur á borð dómstóla hér á landi, á rætur að rekja til hlutabréfakaupa sheikh Mohammad Bin Khalifa Al-Thani frá Katar hinn 22. september 2008 en félag hans keypti 5,01 prósenta hlut í Kaupþingi banka fyrir 25,7 milljarða króna með láni frá bankanum.
Ljóst lengi að Ólafur telur dóminn rangan
Ljóst hefur verið um nokkurt skeið að Ólafur telur dóm Hæstaréttar yfir sér rangan og að hann vilji fá honum hnekkt. Daginn eftir að dómurinn féll upplýsti Ólafur um að hann ætlaði sér að kæra málið til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Í mars héldu aðstandendur þeirra sem dæmdir voru í Al Thani-málinu fund á Hilton-hótelinu þar verjendur fóru yfir málið. Auk þess mætti Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum hæstaréttardómari, á fundinn og lýsti skoðun sinni á dómnum.
Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar, skrifaði grein í Fréttablaðið í byrjun apríl þar sem hún sagði að eiginmaður sinn hafi verið dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti í Al Thani-málinu svokallaða á grundvelli misskilnings.
Í greininni segir að í upphafsforsendur dómsins vísi Hæstiréttir til símtals í gögnum málsins þar sem ítrekað komi fram að rætt hafi verið við „Óla“ um nákvæma útfærslu viðskiptanna. „Hæstiréttur fer mannavillt í rökstuðningi sínum og ályktar að hér sé átt við eiginmann minn, Ólaf Ólafsson, en hið rétta er að um er að ræða lögfræðing með sama fornafni sem er sérfræðingur í lögum um kauphallarviðskipti."Hún fullyrti að bæði ákæruvaldið og héraðsdómur hefði áttað sig á því að umrætt símtal var ekki við Ólaf, eiginmann hennar.
Rúmum mánuði síðar fór Ólafur fram á endurupptöku málsins á þessum grundvelli.
Björn Þorvaldsson, sem sótti Al Thani-málið fyrir hönd embættis sérstaks saksóknara, hefur hins vegar sagt það vera misskilning að Ólafur hafi verið dæmdur í fangelsi á grundvelli misskilnings. Það sé alveg skýrt að í því símtali þar sem rætt hafi verið um „Óla“ sem Hæstiréttur fjallar um sé verið að ræða Ólaf Ólafsson, ekki lögfræðing með sama fornafni sem sé sérfræðingur í kauphallarviðskiptum. Auk þess séu fullt af öðrum gögnum, tölvupóstar og framburðir og annað, sem bendi til aðkomu Ólafs. "Þannig að ef þessu símtali yrði kippt út yrði hann sakfelldur eftir sem áður,“ sagði Björn í samtali við Kjarnann í apríl.
Ömurlegt hlutskipti en góður crossfit-þjálfari
Í viðtalinu í Viðskiptablaðinu segir Ólafur að Kvíabryggja sé ömurlegur staður og að það sé ömurlegt hlutskipti í lífinu að búa við það að vera í fangelsi. Hann sinni hins vegar sínu starfi og sé mjög duglegur í líkamsrækt. Magnús Guðmundsson, sem var einnig dæmdur í Al Thani-málinu, sé frábær crossfit-þjálfari og því hafi Ólafur aldrei verið í betra líkamlegu formi.