Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti Íslands hélt ávarp við útgáfuathöfn í tilefni íslenskrar útgáfu bókarinnar Xi Jinping: Kínversk stjórnmál I sem fram fór í Hörpu á þriðjudag. Viðburðurinn var haldinn á vegum kínverska sendiráðsins á Íslandi og Alþjóðlegrar útgáfusamsteypu Kína.
Á vef kínverska sendiráðsins á Íslandi og í forsíðuumfjöllun dagblaðsins China Daily, sem er alþjóðlegt málgagn kínverska stjórnvalda, er Ólafur Ragnar í ræðu sinni sagður hafa rifjað upp samskipti sín við Xi Jinping á fyrri árum og lýst því að hann hafi verið mjög hrifinn af hugmyndum hans um stjórnspeki.
Á vef sendiráðsins er Ólafur Ragnar sagður hafa tjáð viðstöddum að hann hefði verið „impressed by President Xi Jinping's philosophy of governing the country“ og í frétt China Daily segir að Ólafur Ragnar hafi verið „deeply impressed by Xi's ideas on governance“ en þessi ummæli eru ekki höfð eftir forsetanum fyrrverandi í beinni ræðu.
Þorsteinn Kristinsson doktorsnemi í stjórnmálafræði í Lundi í Svíþjóð vakti athygli á þeim ummælum sem höfð eru eftir Ólafi Ragnari á forsíðu China Daily í færslu á Twitter í morgun.
Hann beindi þeirri spurningu til forsetans fyrrverandi hvort þarna væri rétt eftir honum haft, að hann hefði lýst sig innilega hrifinn af stjórnspeki Xi, „mannsins sem er að færa Kína frá einræði aftur til alræðis og hyggst skipa sjálfan sig leiðtoga fyrir lífstíð“.
„Ansi skrautlegar ýkjur“
Kjarninn spurði Ólaf Ragnar að því sama, og segir hann í skriflegu svari við fyrirspurn blaðamanns að um sé að ræða „ansi skrautlegar ýkjur í Ríkisfréttastofu Kína“. Hann vísaði svo til svars sem hann veitti Fréttablaðinu í dag, þar sem hann meðal annars sagði það út í hött að hann hafi verið að tala um stuðning við stjórnarfar í Kína.
„Ég segi nú við þennan ágæta mann sem hóf þessa umræðu á Twitter að vara sig á kínversku ríkisfréttastofunni,“ sagði Ólafur Ragnar við blaðið.
Ísland á forsíðu China Daily.
— Thorsteinn Kristinsson (@Stennikr) October 13, 2022
Ólafur Ragnar segist vera „innilega hrifinn“ af stjórnspeki Xi Jinping - mannsins sem er að færa Kína frá einræði aftur til alræðis og hyggst skipa sjálfan sig leiðtoga fyrir lífstíð.
Þetta er ekki gott lúkk @ORGrimsson.https://t.co/HUhatK5YUD pic.twitter.com/BBLE9VLer7
Samkvæmt frétt China Daily sagði Ólafur Ragnar einnig í ávarpi sínu að hann fagnaði útgáfu bókar Xi á íslensku, mikilvægt væri að fyrir þróun heimsins að skilja Kína og að íslensk útgáfa bókarinnar, sem er á vegum BF-útgáfu, myndi stuðla að sameiginlegum skilningi og vinsamlegum tengslum á milli Kína og Íslands.
Á vef kínverska sendiráðsins er haft eftir He Rulong sendiherra Kína hérlendis að útgáfa bókarinnar á íslensku beri vitni um mikilvægið sem Kína veiti tengslum sínum við Ísland og gagnkvæmri vináttu. Bókin muni hjálpa íslenskum lesendum að skilja hugsanagang Xi Jinping forseta um hvernig skuli stýra Kína í átt til þjóðlegrar velsældar.
Rit Xi hafa komið út á 37 tungumálum
Bókin sem nú er komin út á íslensku er fyrsta ritið af fjórum í bókaröð Xi Jinping, sem inniheldur valdar ræður og skrif kínverska forsetans. Bækurnar hans hafa nú verið þýddar á alls 37 tungumál og óhætt er að fullyrða að íslenska sé smæsta tungumálið sem bók eftir Xi hefur verið gefin út á.
Bækur Xi hafa fengið misjafna dóma þeirra sem þær hafa lesið, en ýmsum þykja þær þó veita gagnlega innsýn í þankagang leiðtogans og voru meðal annars fréttir sagðar af því að Mark Zuckerberg forstjóri Meta (áður Facebook) hefði legið yfir bókunum og pantað eintök fyrir starfsmenn fyrirtækisins.
Það vakti svo nokkra athygli undir lok síðasta árs er Reuters skýrði frá ástæðunum fyrir því að Amazon hefði ákveðið að loka á stjörnugjöf alls varnings sem boðinn er til sölu í kínverskri útgáfu verslunarrisans.
Að sögn heimildarmanna Reuters voru neikvæðar umsagnir og stjörnugjafir um bók Xi ástæðan fyrir því að þetta var gert, að kröfu kínverskra stjórnvalda. Allt undir fimm stjörnum var vandamálið, að sögn heimildarmanns Reuters sem þekkti til málsins hjá Amazon.
Fréttin var uppfærð með viðbrögðum Ólafs Ragnars eftir að þau bárust