Allir þrír starfsmennirnir á skrifstofu Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) hafa sagt upp störfum og munu láta af störfum á næstu vikum og mánuðum. Frá þessu var greint í yfirlýsingu frá varaformanni stjórnar félagsins, Ástu Leonhardsdóttur, sem birtist á vef KVH í dag.
Ásta sagði í þessari sömu yfirlýsingu að uppsagnir starfsmanna á skrifstofu stéttarfélagsins mætti rekja til hnökra í samstarfi stjórnar félagsins og að brestir í samstarfi stjórnarinnar hefðu haft afleiðingar á skrifstofu félagsins sem skapað hefur „stigvaxandi ókyrrð í starfsöryggi grandlausra starfsmanna þar“. Sjálf ætlar hún að hætta í stjórninni. Formaður stjórnar KVH er Stefán Þór Björnsson.
Starfsmennirnir á skrifstofu félagsins eru þrír talsins, framkvæmdastjóri og tveir aðrir sérfræðingar. Skrifstofa KVH er með aðsetur á sama stað og Bandalag háskólamanna (BHM) í Borgartúni 6, í húsi sem gjarnan gengur undir nafninu Rúgbrauðsgerðin frá fyrri tíð. Félagsmenn KVH eru um 1.700 talsins og er félagið það þriðja stærsta innan BHM.
Segir rekstrarrof framundan hjá félaginu
„Nú er svo komið að allir starfsmenn á skrifstofu KVH hafa sagt upp störfum. Sú þekking sem býr í starfsfólki skrifstofunnar mun á næstu dögum og vikum hverfa með brotthvarfi þeirra. Er það mjög miður og er hér um altjón félagsins að ræða. Komast hefði mátt hjá þessari stöðu en stjórn sneiddi hjá tækifærum til þess þrátt fyrir viðvörunarmerki í þá veru. Framundan er rekstrarrof á skrifstofu KVH,“ segir í yfirlýsingu Ástu.
Þar segir einnig að hún sem kjörinn fulltrúi í stjórn KVH sé miður sín yfir því að „horfa á bak metnaðarfullum og faglegum sérfræðingum félagsins ganga út og hverfa til annarra starfa“.
Ásta segist sjálf ætla að hverfa úr stjórn félagsins í „von um að það verði til þess að auka samstarfsvilja og virðingar innan stjórnar sem kunni að takmarka það tjón sem þegar er orðið.“