Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hafa lagt fram frumvarp sem leggur til að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði í tveimur skrefum. Það á, að þeirra mati, að gera til að styrkja stöðu einkarekinna fjölmiðla og gera RÚV kleift að einbeita sér að menningarhlutverki sínu.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, sem leiðir starfshóp stjórnarþingmanna sem er ætlað að sætta ólík sjónarmið um starfsemi RÚV, klórar sér í hausnum yfir frumvarpinu. Hann segir ályktanir Óla Björns og Brynjar um hvernig eigi að styrkja einkarekna fjölmiðla benda til þess að þeir séu ekki staddir í nútímanum. Þess í stað séu þeir „fastir í eigin kreddum.“
Aukið svigrúm fyrir menningarlegt hlutverk
Frumvarp þingmannanna tveggja gengur út á að frá byrjun næsta árs og út árið 2023 verði RÚV gert óheimilt að stunda beina sölu á auglýsingum, hlutfall auglýsinga megi ekki fara yfir fimm mínútur á hvern klukkutíma í útsendingartíma, óheimilt verði að slíta í sundur dagskrárliði með auglýsingum og bannað að selja kostun á efni. Þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði verði svo hætt í byrjun árs 2024.
Ekki er gert ráð fyrir því að RÚV verði bætt það tekjutap sem fyrirtækið yrði fyrir vegna þessa með öðrum hætti, en tekjur RÚV af samkeppnisrekstri voru 2,2 milljarðar króna árið 2019.
Eru á móti styrkjakerfi
Þingmennirnir tveir telja augljóst að samkeppnisrekstur ríkisins á auglýsingamarkaði fjölmiðla hafi verulega neikvæð áhrif á rekstur og fjárhag sjálfstæðra fjölmiðla sem flestir standi höllum fæti.
Takmörkun á umsvifum og síðar bann við samkeppnisrekstri á sviði auglýsinga og kostunar ætti því að mati Óla Björns og Brynjars að bæta hag sjálfstæðra fjölmiðla. „Óvarlegt er að ætla að þær tekjur sem ríkisfyrirtækið hefur haft af sölu auglýsinga og kostunar komi óskertar í hlut sjálfstætt starfandi fjölmiðla eftir 1. janúar 2024. Þó má ætla að tekjur sjálfstæðra fjölmiðla aukist verulega og mun meira en gert er ráð fyrir í frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra um ríkisstuðning við einkarekna fjölmiðla[...]Flutningsmenn telja að skynsamlegra sé að styrkja stöðu einkarekinna fjölmiðla með því að takmarka verulega samkeppnisrekstur ríkisins fremur en að koma upp flóknu kerfi millifærslna og ríkisstyrkja. Slíkt stuðlar að auknu heilbrigði á fjölmiðlamarkaði.“
„Fastir í eigin kreddum“
Í febrúar fól Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, þremur fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna að rýna lög um RÚV og gera tillögur að breytingum sem líklegar eru til að sætta ólík sjónarmið um starfsemi og hlutverk þess.
Fulltrúar flokkanna eru Kolbeinn Óttarsson Proppé, fulltrúi Vinstri grænna sem er jafnframt formaður hópsins, Silja Dögg Gunnarsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins, og Páll Magnússon, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi útvarpsstjóri.
Ráðgert var að þau myndu ljúka störfum eigi síðar en 31. mars, eða í gær. Af því varð ekki og Kolbeinn segir í samtali við Kjarnann að vinnu hópsins muni ljúka fljótlega eftir páska.
Hann gagnrýnir það að Óli Björn og Brynjar hafi lagt fram ofangreint frumvarp á sama tíma og vinna hópsins stendur yfir. „Ég klóra mér í kollinum yfir þessu. Mér finnst mjög furðulegt að leggja fram svona mál á meðal að ég sit með öðrum þingmanni þeirra flokks í starfshópi þar sem við erum að fara yfir þessi mál, þar á meðal þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði.“
Kolbeinn segist þá hugmynd Óla Björns og Brynjars að ætla að styrkja stöðu einkarekinna fjölmiðla einungis með því að draga RÚV út af auglýsingamarkaði ekki ganga upp. „Ályktunin sem þeir draga varðandi leiðir til að styrkja einkarekna fjölmiðla benda til þess að þeir séu ekki staddir í nútímanum og því fjölmiðlaumhverfi sem við búum við, heldur fastir í eigin kreddum.“