Stefán Eiríksson: Helgi Seljan hefur búið við „fordæmalausar árásir“ af hálfu Samherja

Útvarpsstjóri hefur kallað eftir því að fulltrúar starfsfólks RÚV verði tilnefndir í hóp til að endurskoða siðareglur fyrirtækisins. Hann segir starfsfólk RÚV hafa sett gildandi siðareglur.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.
Auglýsing

Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri RÚV, hefur óskað eftir því við stjórn Félags fréttamanna og stjórn Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins að tilnefna fulltrúa starfsfólks í hóp sem hefur það hlutverk að ljúka endurskoðun á siðareglum RÚV. Nauðsynlegt sé að uppfæra reglurnar. Þetta kemur fram í tölvupósti sem hann sendi á starfsfólk RÚV fyrr í dag.

Tölvupósturinn var sendur í kjölfar þess að stjórn RÚV hafnaði því í gær að verða við kröfum lögmanns Samherja um að hlutast til um að blaðamaðurinn Helgi Seljan, sem starfa fyrir fréttaskýringaþátinn Kveik, verði áminntur og gert að hætta að fjalla um málefni fyrirtækisins. Sú krafa var sett fram í kjölfar þess að fjögur ummæli sem Helgi lét falla á samfélagsmiðlum voru úrskurðuð sem alvarlegt brot á siðareglum RÚV af siðanefnd. Sama nefnd komst að þeirri niðurstöðu að tíu aðrir starfsmenn RÚV sem kærðir voru til hennar hefðu ekki brotið gegn siðareglum eða kærum gegn þeim vísað frá. Sömu sögu er að segja varðandi flest þeirra ummæla sem Helgi hafði látið falla á samfélagsmiðlum og lögmaður Samherja kærði.

Auglýsing
Stefán segir í póstinum að niðurstaða stjórnar RÚV sé skýr og mikilvæg yfirlýsing. Ekkert hefði komið fram um það í niðurstöðu nefndarinnar að í ummælum Helga hefði falist brot í starfi í skilningi laga og því var skýrt tekið fram í yfirlýsingu Stefáns og Heiðars Arnar Sigurfinnssonar, varafréttastjóra fréttastofu RÚV sem birt var á föstudag, að niðurstaðan hefði ekki áhrif á störf hans hjá RÚV. „Í því samhengi er mikilvægt að hafa í huga að viðkomandi starfsmaður hefur þurft að búa við fordæmalausar árásir á sig og sín störf af hálfu fyrirtækisins, í tengslum við fréttaflutning af framferði þess á undanförnum árum. RÚV hefur gert sitt til þess að styðja við bakið á honum vegna þessa, eins og sjá má í framangreindri yfirlýsingu sem og yfirlýsingu minni og fréttastjóra frá 11. ágúst sl. þar sem aðför fyrirtækisins að honum, með tilhæfulausum ásökunum og herferð gegn mannorði hans og æru, var fordæmd.“

Mikilvægt að uppfæra reglurnar

Gagnrýnt hefur verið að umræddar siðareglur, sem tóku gildi 2016, séu sagðar samdar af starfsmönnum RÚV. Fulltrúi fréttamanna í starfshópi sem hafði það verkefni að vinna að undirbúningi reglnanna, Jóhann Hlíðar Harðarson, sagði í umræðum á Facebook um liðna helgi að reglurnar væru ekki verk hópsins. „Höf­und­anna þarf að leita ann­ars stað­ar.“

Stefán hafnar þessari skýringu í tölvupóstinum í dag og segir vinnuhóp starfsfólks RÚV hafa unnið drög að reglunum og að fulltrúar allra miðla innan fyrirtækisins hafi skipað þann hóp. „Í þeirri vinnu var horft til erlendra siðareglna og leitað sérfræðilegrar ráðgjafar hér innanlands. Drög að reglunum voru kynnt starfsfólki (fundur og póstur í nóvember 2015) og tekið var við og unnið úr ábendingum og tillögum að breytingum sem bárust þá og í kjölfarið. Hópurinn skilaði í framhaldinu af sér tillögu að reglum (febrúar 2016) sem eru þær sömu og við búum við í dag, engar breytingar voru gerðar á þeim texta eftir að hópurinn skilaði þeim af sér. Reglurnar voru settar að loknu þessu ferli á sérstökum fundi (mars 2016) og eru settar af starfsfólki Ríkisútvarpsins eins og þar er skýrt tekið fram.“

Reglurnar hafi hins vegar verið gagnrýndar alla tíð síðan og sérstaklega tiltekið ákvæði þeirra sem talið er að með of fortakslausum hætti leggi bann við því að starfsfólk í fréttum og dagskrárgerð taki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild þjóðfélagsmál.

Stefán segir í tölvupóstinum að skýrt sé í allri framkvæmd hjá RÚV við fréttir og dagskrárgerð að fréttamenn og dagskrárgerðarfólk skuli gæta hlutlægni og sanngirni í störfum sínum og taki ekki efnislega afstöðu til mála sem þeir fjalla um. „Á því byggist m.a. það traust sem til okkar mælist, og ágætt að hafa það í huga að það hefur aldrei mælst hærra heldur en í síðustu mælingu sem framkvæmd var sl. haust. Á sama tíma getum við ekki haft í okkar reglum ákvæði sem veldur vandkvæðum við túlkun og er að mati þeirra sem best til þekkja of fortakslaust og/eða óljóst. Yfir þetta er því mikilvægt að fara og uppfæra reglurnar, líkt og við gerðum nýverið í framangreindum vinnureglum um fréttir og dagskrárefni tengt þeim.“

Fréttastjóri segir Samherja hafa beitt Helga ofbeldi

Fyrr í dag sendi Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, frá sér yfirlýsingu vegna erindis Samherja til stjórnar RÚV. Þar sagði að afstaða stjórnenda RÚV í málinu mótist fyrst og síðast af því að fréttaflutningur Kveiks og fréttastofunnar var ekki til umfjöllunar hjá nefndinni frekar en störf Helga. Sú umfjöllun standi að öllu leyti. „Hvort sem menn telja ummæli Helga Seljan á samfélagsmiðlun viðeigandi eða ekki er fráleitt að slíta þau úr samhengi við þá aðför eða herferð sem fulltrúar Samherja hafa skipulagt gegn frétta- og blaðamönnum sem fjallað hafa um málefni fyrirtækisins síðustu misseri. Aðför sem hefur þann eina tilgang að kæfa gagnrýna umræðu og koma í veg fyrir að fréttamenn geti sinnt starfi sínu. Að skjóta sendiboðann svo upplýsingar skili sér ekki til almennings.“

Rakel segir að í persónulegum árásum stórfyrirtækja gegn einstaklingum felist ofbeldi sem ekki verði við unað. „Það er ógerningur að slíta þau ummæli Helga, sem nefndin taldi brotleg, úr samhengi við þessa aðför.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent