Auglýsing

Umfjöllun Kveiks og annarra fjölmiðla um meintar mútugreiðslur, skattsvik, peningaþvætti og mögulega önnur brot Samherja í tengslum við umsvif fyrirtækisins í Namibíu og víðar fór í loftið 12. nóvember 2019. Fyrir 503 dögum síðan. 

Síðan þáttur Kveiks var sýndur, og umfjöllun Stundarinnar var birt, hefur margt gerst. Strax eftir umfjöllunina 2019 sögðu háttsettir ráðherrar í Namibíu af sér vegna málsins. Skömmu síðar voru þeir ásamt helstu samverkamönnum sínum hnepptir í gæsluvarðhald. Í febrúar 2021 var hópurinn ákærður ásamt þremur Íslendingum sem starfa, eða störfuðu, hjá Samherja. 

Norskur stórbanki sleit viðskiptasambandi sínu við Samherja í lok árs 2019 vegna þess að stjórnendur dótturfélaga sjávarútvegsrisans, sem áttu reikninga í bankanum, svöruðu ekki kröfu bankans um frekari upplýsingar um starfsemi þess, millifærslur sem það framkvæmdi og tengda aðila, með fullnægjandi hætti. Þar eru bankaviðskipti Samherja enn til skoðunar hjá norska fjármálaeftirlitinu. 

Á Íslandi er í gangi ein víðtækasta rannsókn sem framkvæmd hefur verið á efnahagsbroti hérlendis. Í mál­inu er grunur um að mútu­greiðslur hafi átt sér stað, meðal ann­ars til erlendra opin­berra starfs­manna. Auk þess er grunur um brot á ákvæði almennra hegn­ing­ar­laga um pen­inga­þvætti og brot á ákvæði sömu laga um auðg­un­ar­brot. Rannsóknin á sér stað innan embættis héraðssaksóknara og innan embættis skattrannsóknarstjóra, sem ráðamenn reyna nú að leggja niður.

Fjöldi með réttarstöðu sakbornings

Í byrjun sept­em­ber 2020 var greint frá því á Kjarn­anum að Þor­steinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, væri á meðal ein­stak­l­inga sem eru með rétt­­ar­­stöðu sak­­born­ings í rann­­sókn hér­­aðs­sak­­sókn­­ara á starf­­semi Samherji­­ ásamt fimm öðrum núverandi og fyrrverandi starfsmönnum fyrirtækisins. Hópurinn var yfirheyrður í fyrrasumar og þá gerð grein fyrir réttarstöðu sinni. Hinir eru Ingvar Júl­í­us­­son, fjár­­­mála­­stjóri Sam­herja á Kýp­­ur, Arna McClure, yfir­­lög­fræð­ingur Sam­herja og ræð­is­­maður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árna­­son, fram­­kvæmda­­stjóri Sam­herja í Namib­­íu, Aðal­­­steinn Helga­­son, fyrr­ver­andi fram­­kvæmda­­stjóri Sam­herja í Namib­­íu, og Jóhannes Stef­áns­­son, sem gerðist uppljóstrari og lék lykilhlutverk í að koma málinu fyrir augu almennings.

Auglýsing
Í febrúar 2021 greindi Kjarninn frá því að KPMG, fyrrverandi endurskoðandi Samherja, hafi verið gert að láta emb­ætti hér­­aðs­sak­­sókn­­ara í té upp­­lýs­ingar og gögn varð­andi bók­hald og reikn­ings­skil allra félaga Sam­herj­­a­­sam­­stæð­unnar á árunum 2011 til 2020. Einnig þarf fyr­ir­tækið að láta hér­­aðs­sak­­sókn­­ara hafa upp­­lýs­ingar og gögn sem varða eina til­­­tekna skýrslu sem KPMG vann um starf­­semi Sam­herja á árunum 2013 og 2014. 

Umrædd skýrsla KPMG fyrir Sam­herja, eða öllu heldur drög að henni, hafa verið til umfjöll­unar áður. Sam­kvæmt mati sér­fræð­inga KPMG, sem byggði m.a. á við­tölum við starfs­fólk Sam­herj­a­sam­stæð­unn­ar, var for­stjór­inn Þor­steinn Már nær ein­ráður í fyr­ir­tæk­inu og með alla þræði í hendi sér. Engin form­leg fram­kvæmda­stjórn var sögð innan Sam­herja hf., sam­kvæmt þessum drögum sér­fræð­inga KPMG. Þetta skiptir miklu máli vegna þess að samkvæmt lögum á að greiða alla skatta þar sem raunveruleg stjórn fyrirtækis er. Sá úrskurður var síðar ómerktur vegna formgalla á málsmeðferð og því þarf að sækja heimild til að fá upplýsingarnar að nýju. 

Frekari mútugreiðslur og Kýpurstarfsemi

Í febrúar birti Kveikur líka framhaldsumfjöllun um Namibíuumsvif Samherja. Þar kom meðal ann­ars fram að grunur sé um frek­ari mútu­greiðslur til stjórn­mála­manna í Namibíu en áður hefur verið greint frá hér­lendis og kafað var ofan í Kýp­ur­starf­semi Sam­herj­a. 

Þá kom einnig fram í Kveik að í skýrslu rann­sókn­ar­end­ur­skoð­enda sem ráðnir voru af sam­starfs­fólki Sam­herja í Namibíu komi fram að þeir telji útgerð­ina hafa svikið fé af fólk­inu. Í rann­sókn­ar­skýrslu þeirra er lagt til að málið verði kært til lög­reglu og krafa gerð á Sam­herja um að greiða fyrr­ver­andi sam­starfs­fólk­inu millj­arða króna. 

Í mars 2021 var sýndur fyrri þáttur af tveimur um umsvif Samherja í Færeyjum. Þar kom meðal annars fram upplýsingar sem bentu til mögulegra skattsvika félags tengt Samherja þar í landi. Færeyski skattstjórinn kallaði málið „skítamál“ og hefur staðfest með stöðuuppfærslu á Facebook að það sé til athugunar þar í landi. 

Endurnýtt aðferðarfræði

Allt sem talið er upp hér að ofan eru staðreyndir. Þær sýna hversu alvarleg mál eru hér á ferðinni. 

Viðbrögð stjórnenda Samherja við málinu hafa að uppistöðu verið að ráðast á fólk sem sagði frá því. Vörn þeirra í mútuhluta þess eru að Jóhannes Stefánsson, sem átti ekkert í Samherja og hagnaðist ekki beint af mútugreiðslunum, hafi framkvæmt þær sjálfur og án þeirra atbeina. Að Jóhannes sé ofbeldismaður og fíkniefnaneytandi. Í engu er þó reynt að takast á við fyrirliggjandi staðreyndir, sem eru til að mynda þær að stórtækar meintar mútugreiðslur voru greiddar árum saman eftir að Jóhannes hætti störfum hjá Samherja. 

Í öðrum öngum eru blaðamenn sem eiga engra hagsmuna að gæta annarra en þeirra að upplýsa almenning, skotspónn fyrirtækisins.

Þessi aðferðarfræði er sú sama og Samherji beitti í hinu svokallaða Seðlabankamáli, með gríðarlega góðum árangri. Þann stríðsrekstur má meðal annars lesa um hér en í stuttu máli voru meint brot Samherja á gjaldeyrislögum eftir bankahrunið kærð til sér­staks sak­sókn­ara. Í ljós kom að ekki væri laga­­stoð fyrir því að kæra fyr­ir­tæki í saka­­máli fyrir gjald­eyr­is­brot. Und­ir­skrift ráð­herra hafði vantað á reglu­gerð um gjald­eyr­is­­mál sem gefin var út í des­em­ber 2008 sem gerði þetta að verk­um. Sam­herj­a­málið var því á end­anum fellt niður á þessum grund­velli. Dóm­stólar tóku það aldrei til efn­is­legrar með­ferðar eða skáru úr um hvort Sam­herji hefði gert það sem Seðla­bank­inn taldi að fyr­ir­tækið hefði gert.

Samherja hefur hins vegar tekist að selja þá hugmynd, með gríðarlegum tilkostnaði, að fyrirtækið hafi verið fórnarlamb persónulegrar óvildar starfsmanna Seðlabanka Íslands. Fólks sem var bara að vinna vinnuna sína og taldi sig alla tíð gera það í samræmi við lög og reglur. Þetta fólk var árum saman fyrir stanslausum árásum úr hendi forsvarsmanna Samherja sem tóku á sig sína tær­ustu birt­ing­ar­mynd ann­ars vegar þegar for­stjóri fyr­ir­tæk­is­ins krafð­ist þess að stjórn­mála­menn myndu láta seðla­banka­stjóra, og aðra lyk­il­starfs­menn, víkja og opinberaði að hann ætlaði sér að koma seðlabankastjóra í fangelsi. Hins vegar þegar sonur hans ógn­aði Má Guð­munds­syni, þáverandi seðlabankastjóra, og hreytti í hann orðum eftir fund í stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd vorið 2019. 

Blaðamenn hræðast að lenda í hakkavélinni

Í október 2019 bættust nýir gerendur við í Seðlabankamálinu að mati forsvarsmanna Samherja, blaðamaðurinn Helgi Seljan og vinnustaður hans RÚV. Tveimur dögum áður en að Þorsteinn Már færði fókus sinn yfir á hann í viðtali hafði Kveikur sett sig í samband við hann vegna Namibíurannsóknar sinnar. 

Síðan þá hefur Helgi verið helsta skotmark Samherja. Aragrúi greina hafa birst á heimasíðu þessa alþjóðlega stórfyrirtækis um hversu óheiðarlegur hann sé. Fyrirtækið réðst í stórtæka framleiðslu á ákaflega lélegum myndböndum sem höfðu samt sem áður faglega áferð í þeim tilgangi að rægja Helga, samstarfsmenn hans, RÚV og eftir atvikum aðra blaðamenn. Keypt birting á þessum myndböndum gerði það að verkum að vart er til barn á Íslandi sem gerði tilraun til að horfa á Teletubbies á Youtube um tíma sem fékk ekki reiðan Þorstein Má í kaupbæti. 

Enginn vafi er um að þetta er alvarlegasta aðför stórfyrirtækis að blaðamönnum sem átt hefur sér stað á Íslandi. Afleiðingin er meðal annars sú að ýmsir í stéttinni eru nú farnir að veigra sér við að birta sannar og réttar fréttir um Samherja. Þeir vilja ekki lenda í hakkavélinni. Að því leyti til hefur hin ofsakennda, vanstillta, umfangsmikla en innihaldsrýra herferð Samherja þegar skilað tilætluðum árangri, því miður. 

Óhætt er að fullyrða, miðað við þann fjölda sem vinnur við að herja á þetta fólk nánast daglega, að kostnaður Samherja við þennan stríðsrekstur hafi líkast til hlaupið á hundruðum milljóna króna síðastliðna rúma 500 daga. 

Maður fyrir utan heimilið

Maður í vinnu hjá fyrirtækinu, einkaspæjarinn Jón Óttar Ólafsson, stundaði það mánuðum saman að sitja fyrir Helga Seljan á kaffihúsi sem hann sækir á morgnanna, hvísla stundum að honum vafasömum hlutum og sýna af sér aðra ógnandi tilburði. Samkvæmt nágrönnum Helga hélt Jón Óttar líka til um skeið, oft tímunum saman, í námunda við heimili hans við einhverskonar eftirlit.

Auglýsing
Umræddur maður hafði starfað fyrir Samherja í mörg ár, meðal annars í Namibíu. Í nýlegu skaða­bóta­máli sem Samherji höfð­aði gegn Seðla­banka Íslands, og tapaði, gerði Sam­herji alls skaða­bóta­kröfu upp á 306 millj­ónir króna. Tæpur helm­ingur þeirrar upp­hæð­ar, alls 135 millj­ónir króna, var vegna kostn­aðar við störf Jóns Ótt­ars fyrir fyr­ir­tæk­ið.

Kjarninn upplýsti um það í fyrra að Jón Óttar hefði auk þess ítrekað sent Helga skila­­boð, bæði í gegnum SMS og Facebook-­­reikn­ing eig­in­­konu sinn­­ar. Ingi Freyr Vil­hjálms­­son, blaða­­maður á Stund­inni sem fjallað hefur um Sam­herja, fékk einnig send skila­­boð þar sem honum var hótað „um­­fjöll­un“.

Þá hefur Jón Óttar komið fram í áðurnefndum mynd­böndum sem Sam­herji hefur látið vinna.

Siðareglurnar sem enginn kannast við að hafa samið

Í lok ágúst 2020 kærði Samherja ellefu frétta- og dagskrárgerðarmenn RÚV til siðanefndar fyrirtækisins vegna ummæla sem þeir höfðu látið falla á samfélagsmiðlum fyrir brot á siðareglum. Þrautreyndur fjölmiðlamaður, sem Samherji réð sér til ráðgjafar eftir að Samherjamálið kom upp, tók að minnsta kosti hluta ummæla fyrrverandi kollega sinna saman. 

Alls kærði Samherji 45 ummæli. Flest þeirra snerust um viðbrögð við þeim árásum sem Samherji hafði stundað gegn samstarfsmönnum þeirra og sá sem lét þau flest falla var Helgi Seljan.

Umræddar siðareglur tóku gildi snemma árs 2016, nánast á sama tíma og Panamaskjölin svokölluðu voru opinberuð en birting þeirra leiddi til afsagnar þáverandi forsætisráðherra og þess að kosningum var flýtt. Siðareglurnar áttu að setja tjáningarfrelsi starfsmanna RÚV verulegar skorður og almennt mat þeirra sem til þekkja er að sum ákvæði reglnanna gangi gegn stjórnarskrárvörðum rétt fólks til tjáningar. Sérstaklega er réttur starfsmanna til að tjá sig á samfélagsmiðlum skertur.

Auglýsing
Í aðdraganda þess að siðareglurnar voru settar var skipaður starfshópur starfsmanna til að vinna að undirbúningi þeirra. Einn þeirra sem sat í starfshópnum var Jóhann Hlíðar Harðarson, fyrrverandi fréttamaður á RÚV. Hann segir í umræðum á Facebook um tilurð siðareglnanna: „Eftir að starfshópurinn hafði fundað nokkrum sinnum lauk starfi okkar, og stuttu síðar leit þessi óskapnaður ljós. Hann er ekki verk starfshópsins. Höfundanna þarf að leita annars staðar.“ Síðar í umræðunum er bent á að í nýlega birtum úrskurði siðanefndar RÚV segi að starfsfólk fyrirtækisins hafi sjálft sett reglurnar. Jóhann Hlíðar svarar því til að „þetta er gert til þess að gefa þessu eitthvert yfirbragð þess að “við” höfum sett okkur okkar eigin starfsreglur. Svo var ekki, umræður okkar og skoðanir voru teknar og svo var annað fólk sem samdi hinar eiginlegu siðareglur.“

Mörður Árnason, sem sat í stjórn RÚV þegar reglurnar voru settar og situr þar enn, sagði í áðurnefndum umræðum á Facebook að „útvarpsstjórn var sagt að þetta væru reglur frá starfsmönnum og kæmu okkur ekki við.“

Miðað við þetta þá liggur ekki fyrir hver ber ábyrgð á umræddu ákvæði í siðareglum RÚV. Það var að minnsta kosti ekki starfshópur starfsmanna og ekki stjórn RÚV. Það vill raunar enginn kannast við að hafa samið ákvæðið eða krafist þess að það yrði í siðareglunum!

Til að gera málið enn galnara þá hafa stjórnendur RÚV aldrei gefið út nein leiðbeinandi tilmæli til starfsmanna um hvernig eigi að framfylgja reglunum. Þeir áttu bara að finna það út hjá sjálfum sér.

Þessa stöðu nýttu lögmenn og greiddir fótgönguliðar Samherja sér til að reyna að gera fréttastofu ríkismiðilsins, og þá rannsóknarblaðamenn sem höfðu afhjúpað möguleg lögbrot fyrirtækisins víða um heim, vanhæfa til að fjalla um sig.

Sumir mega verja starfsheiður sinn

Niðurstaða siðanefndarinnar var loks birt í lok síðustu viku, tæpum sjö mánuðum eftir að kæran barst. Í niðurstöðukaflanum segir að siðareglur RÚV hafi verið settar „af starfsfólki RÚV“ þrátt fyrir að ofangreint sýni svart á hvítu að svo sé ekki. Þetta var í fyrsta sinn sem siðanefndin fjallaði um tjáningu á samfélagsmiðlum.

Samkvæmt upphaflega úrskurðinum var 40 ummælum vísað frá eða þau talin þess eðlis að þau brytu ekki í bága við reglurnar. Þar á meðal voru nær öll ummæli sem snérust um fréttaflutning RÚV af Samherja, og voru í flestum tillfellum sett fram í kjölfar fordæmalausra árása fyrirtækisins á Helga Seljan og samstarfsmenn hans.

Tíu af ellefu einstaklingum sem Samherji kærði voru hreinsaðir af sök. Rökstuðningur siðanefndarinnar var sá að fólkið mætti stíga fram að verja starfsheiður sinn eða fréttastofunnar ef að honum er vegið. 

Fimm ummæli Helga Seljan þóttu hins vegar „alvarlegt“ brot á siðareglum. Ummælin eru sögð hafa beinst gegn fyr­ir­svars­mönnum Sam­herja per­sónu­lega. Í nið­ur­stöðu siða­nefnd­ar­inn­ar segir að ummælin séu „á köflum í formi sam­tals, þar sem talað er beint, og stundum niður til for­svars­manna kærenda eða eru sett fram í aug­ljósri hæðn­i.“

Ekki kalla forstjóra „gæsk“

Nú verður farið yfir þau ummæli. Fyrstu ummælin snerust um frétt Morgunblaðsins sem birtist í desember 2019, og voru að uppistöðu gagnrýni á þá blaðamenn sem hana skrifuðu. Í niðurlagi þeirra segir svo: „Vonandi er þessi árétting ekki of einhliða fyrir hinn ballanseraða forstjóra Samherja.“ Þessi setning er að mati siðanefndar RÚV brot á siðareglum, væntanlega vegna þess að þar sé talað niður til Björgólfs Jóhannssonar, þáverandi forstjóra Samherja, eða vegna þess að þau séu sett fram í „augljósri hæðni“. Það er ekki tekið fram sérstaklega hvort er, en Helgi mátti að mati nefndarinnar ekki í þessu tilfelli verja starfsheiður sinn með áréttingu.

Auglýsing
Næstu ummæli voru svar Helga við málflutningi sem áðurnefndur Björgólfur hafði sett fram opinberlega og gaf til kynna að fréttaflutningur Kveiks af málum Samherja hefði verið rangur. Í þeim sagði Helgi að Björgólfur ætti í vandræðum með að „höndla einfaldar staðreyndir“ og benti svo á grein sem hann gæti „byrjað á því að lesa gæskur“. Í lok ummælanna skrifaði Helgi: „Þú þarft ekkert að biðja mig afsökunar samt“. Helgi mátti ekki í þessu tilfelli verja starfsheiður sinn með því að leiðrétta það sem hann taldi vera rangfærslur. Og alls ekki kalla forstjóra stórfyrirtækis „gæskur“. Með þvi var hann að mati nefndarinnar að tala niður til Björgólfs. Eða hæðast að honum.

Þriðju ummælin sem Helgi er sagður hafa brotið siðareglur með að viðhafa voru eftirfarandi: „Rosalega hlýtur þeim að líða vel með sig núna „andlitunum“ sem tóku þátt í að rétta við ímynd þessa kompanís eftir að upp um það komst.“ Umrædd ummæli snertu ekki Samherja á neinn hátt heldur voru sett fram í tengslum við umfjöllun um fyrirtækið Eldum rétt. Þetta lá fyrir við málsmeðferð málsins og Samherji vissi það, enda tiltók lögmaður fyrirtækisins að það þyrfti ekki að vera þolandi ummælanna til að geta kært þau. Samherji mætti móðgast fyrir hönd annarra. Siðanefndin hefur ákveðið að draga niðurstöðu sína um að þessi ummæli séu brot á siðareglum til baka og hafa þau verið fjarlægð úr úrskurðinum

Má ekki tjá sig um fréttamál sem hann er ekki að fjalla um sjálfur

Fjórðu ummælin voru sett fram þegar Fjármálaeftirlitið heimilaði Samherja að sleppa við yfirtökuskyldu í Eimskip. Þá deildi Helgi frétt og skrifaði við: „Hér er hún þá líklega komin, stærsta efnahagsaðgerð íslenskra stjórnvalda vegna Covid-19“. Þessi skoðun hans, á máli sem Helgi var sjálfur ekki að fjalla um í sinni vinnu, var talin brot á siðareglum RÚV.

Fimmtu ummælin snerust um sama mál, yfirtökuskyldu Samherja í Eimskip, en voru sett fram síðar. Þá skrifaði Helgi: „Húrra fyrir seðlabankastjóranum sem lét spila með sig...what a joke!“ Í umræðum um ummælin við hagfræðing Viðskiptaráðs, sagði Helgi svo: „Það að þeim hafi verið heimilað að sleppa undan yfirtökuskyldu í mars, vegna Covid, var galið, og sýnir sig núna að var hreinn fyrirsláttur.“ 

Samandregið þá er Helgi Seljan talinn hafa brotið alvarlega gegn siðareglum RÚV fyrir að tjá sig á samfélagsmiðlum um frétt Morgunblaðsins og árétta að hún byggi á rangfærslum, fyrir að verja starfsheiður sinn og kalla forstjóra Samherja „gæsk“, fyrir að lýsa skoðun á fréttum um yfirtökuskyldu í Eimskip sem hann var sjálfur ekkert að fjalla um og, um tíma, fyrir að gagnrýna frægt fólk fyrir að leika í auglýsingum fyrir Eldum rétt. Niðurstaðan er ekkert rökstudd sértækt heldur einungis almennt með áðurgreindum hætti. Að Helgi hafi verið að hæðast að eða tala niður einhverra.

Fyrir vikið er þessi hroðvirknislega niðurstaða með öllu ómarktæk, til skammar fyrir siðanefndina og fyrir RÚV sem fjölmiðlafyrirtæki.

Reynt að gera fjölmiðil vanhæfan

Það má alveg hafa þá skoðun að Helgi Seljan eigi ekki að tjá sig með þeim hætti sem hann gerir stundum á samfélagsmiðlum. Það er þá stjórnenda í fyrirtækinu hans að leggja honum línur sem Helgi getur ákveðið hvort þess virði sé að fylgja til að starfa innan RÚV. Það hefur aldrei verið gert. Raunar hefur vantað verulega upp á það að stjórnendur þess fyrirtækis verji starfsmenn sína þegar á þá er herjað vegna vinnu sem þeir eru ráðnir til að vinna, svo vægt sé til orða tekið. Sá skortur á skjóli nær yfir marga aðra en Helga Seljan.

Það blasir við öllu sæmilega skynsömu fólki hver tilgangur Samherja með kæru sinni var. Í fyrsta lagi vildi fyrirtækið gera helstu blaðamenn RÚV vanhæfa um að fjalla um sig. Í öðru lagi vildi það senda skýr skilaboð til annarra fjölmiðlamanna um hvað þeir gætu átt í vændum ef þeir segðu óþægilegar fréttir um Samherja. Í þriðja lagi var kæran liður í þeirri vegferð að hafa æruna, lífsviðurværið og mögulega vitið af þeim rannsóknarblaðamönnum sem staðið hafa í stafni umfjöllunar um málefni Samherja. Þetta má meðal annars lesa úr nafnlausu yfirlýsingunni sem fyrirtækið birti á heimasíðu sinni á föstudag, og hefur líka verið birt á ensku og send á erlenda fjölmiðla svo áhrifin verði alveg örugglega alþjóðleg.

Almenningur sér í gegnum gaslýsinguna

Svona aðför má auðvitað ekki takast. Samherjamálið snýst ekkert um Helga Seljan. Það snýst ekki um RÚV eða aðra starfsmenn þess. Það snýst ekki um blaðamennina sem vinna á hverjum degi við að reyna að segja almenningi satt og rétt frá við gjörsamlega óboðlegar aðstæður í þessu samansúrraða strokuspillingarsamfélagi okkar þar sem hagsmunir valinna viðskiptablokka og stjórnmál renna á mörgum stöðum saman í eitt.

Samherjamálið snýst um að eitt stærsta fyrirtæki á Íslandi er grunað um efnahagsbrot af áður óþekktri stærðargráðu víða um heim. Það er grunað um að hafa sleppt því að greiða rétta skatta. Það er grunað um að hafa mútað stjórnmálamönnum og eftir atvikum framið önnur efnahagsbrot. Það er grunað um að hafa valdið miklum samfélagslegum skaða með athæfi sínu. Í málinu liggja fyrir gögn og vitnisburðir sem styðja við þessar ásakanir. 

Almenningur í landinu sér blessunarlega í gegnum gaslýsingartilraunir Samherja og málaliða þeirra til að beina athyglinni að sendiboðanum. Í nýlegri könnun kom í ljós að 92 prósent landsmanna trúir því að Samherji hafi greitt mútur og 69 prósent sögðu að álit þeirra á Samherja hefði versnað. Það bendir skýrt til þess að fólk treysti því að íslenskir blaðamenn hafi það markmið að segja satt og rétt frá, ekki að finna einhverju ímynduðu hatri á fyrirtæki farveg. Og það treystir því að málið fái viðeigandi afgreiðslu í kerfinu eftir sanngjörnum reglum réttarríkisins.

Munaðarlausar siðareglur og illa áttuð siðanefnd breyta engu um það. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari