Saga byrjar

Jón Gnarr tekur fyrir hina svokölluðu Íslandssögu í pistlaröð. Annar pistill Jóns fjallar um landnámið en Jón efast um að það hafi atvikast með sama hætti og okkur hefur alltaf verið kennt.

Auglýsing

Því hefur verið haldið fram að Ísland hafi fyrst byggst upp af sterkefnuðum norskum bændum, með víkingablóð í æðum sem hafi séð Ísland sem einhverja landbúnaðarparadís og hafi flutt hingað með allt sitt hafurtask og aldrei horft til baka. Það held ég að sé að mestu leyti skáldskapur og óskhyggja.

Það er erfitt að segja með vissu nákvæmlega hvenær Ísland uppgötvaðist sem landsvæði á heimskortinu. Eftir því sem ég kemst næst þá eru elstu heimildir, sem okkur varða, úr frásögnum gríska landkönnuðarins Pýþeasar frá Massalíu, sem uppi var á 4. öld fyrir Krist. Í ferðasögu hans er lýsing á landi sem mörgum gæti fundist eiga vel við Ísland. Hann minnist þar á hafís, sem var flestum vestrænum mönnum framandi á þessum tíma. Hann minnist líka á miðnætursólina. En hún er náttúrlega ekki neitt einsdæmi hér.

Upprunaleg ferðasaga Pýþeasar er víst löngu glötuð og einungis varðveitt í brotakenndri endurfrásögn annars manns. Það var Pýþeas sem fyrstur talar um Thule og margir hafa viljað meina að þar væri hann að tala um Ísland og því hefur jafnvel verið haldið fram af sumum, jafnvel fræðafólki. Það er samt álit flestra fræðinga að svo sé ekki og Thule eigi frekar við um Noreg eða jafnvel Orkneyjar.

Auglýsing

Við vitum ósköp lítið um ferðir Pýþeasar og hvort hann fór yfir höfuð í þær sjálfur eða hvort hann ritaði þær einungis upp eftir öðrum yfir vínglasi, sitjandi í sólbaði í góða veðrinu á Asoreyjum. Það er náttúrlega ómögulegt að segja. En ferðasaga hans er að minnsta kosti talin fyrsta skráða tilraunin til að kortleggja Norður-Atlantshafið og upplýsingar um mismunandi aðstæður þar.

Brendan frá Klonfert og flakk írskra munka

Næstur til að koma hugsanlega til Íslands sýnist mér vera írski munkurinn og landkönnuðurinn Brendan frá Klonfert sem uppi var á fimmtu öld eftir Krist. Elstu varðveittu heimildirnar eru samt miklu yngri, skrifaðar mörghundruð árum síðar. Brendan þessi gæti því allt eins verið tilbúin skáldsagnapersóna. Hann ku hafa flækst víða um Atlantshafið, ásamt fleiri munkum, á léttum skinnbátum.

Mjög líklegt er talið að hann hafi komið til Færeyja. Af lýsingum hans má ætla að hann hafi líka komið til Íslands því hann minnist á eldvirkni. Það eru engin eldfjöll í Færeyjum. Margir vilja líka meina að Brendan hafi fyrstur manna siglt yfir Atlandshafið og alla leið til Ameríku og er því víða haldið fram á Írlandi með svipuðum hætti og sannfæringu við gerum með Leif okkar Eiríksson.

Ferðasögur Brendans eru varðveittar í yfir 100 mismunandi handritum og á ólíkum tungumálum. Lýsingar hans eru uppfullar af ýkjum, myndlíkingum og trúarlegum tilvísunum sem erfitt getur verið að henda reiður á.

Það eru litlar og frekar óljósar og vafasamar heimildir um að írskir einsetumunkar hafi komið hér að sumarlagi og dvalist hér til að sækja sér einveru og yfirbót. Þetta er hugmynd sem reglulega skýtur upp kollinum. Höfundur Landnámabókar segir frá munkum sem eiga að hafa verið hér við landnámið en mér að vitandi hafa aldrei fundist hér neinar fornminjar sem styðja við þessa kenningu.

Eins og við þekkjum úr sögunni af Jesú þá tók það hann frekar langan tíma að deyja og hann dó og vaknaði aftur til lífsins til skiptis. En í þessari langdregnu banalegu boðaði hann endurkomu sína og ætlaði í þeirri ferð að standa fyrir og taka þátt í heimsendi. Einhverjir hafa velt upp þeirri hugmynd að hugsanlega hefðu jarðhræringar hér og eldsumbrot verið hinum heittrúuðu munkum innblástur og skýrt tákn um að heimsendir væri runninn upp og það hafi verið atburður sem þeir vildu alls ekki missa af og helst taka þátt í alveg frá upphafi.

Þessir menn voru náttúrlega bókstafstrúarmenn sem efuðust ekki um það að heimsendir væri bara að detta inn á hverri stundu og öll þeirra tilvera gekk út á meinlætalíf, einsemd, yfirbót og þjáningu. Ísland hefur alltaf verið kjörinn staður fyrir alls konar þjáningu. En um þetta er ekkert vitað.

Skáldsagnapersónurnar Ingólfur Arnarson og Hrafna-Flóki

Ísland kemst samt ekki almennilega á kortið fyrr en norrænir menn byrja að sigla hingað nokkrum öldum eftir téðan Brendan eða um 8-900 árum eftir fæðingu Jesú og þetta svokallaða „landnám” hefst. Því hefur jafnan verið haldið fram að ástæðan fyrir því að norsarar hafi byrjað að flykkjast hingað hafi verið sú að þau hafi viljað flýja ofríki Haraldar hárfagra Noregskonungs.

Mér hefur aldrei fundist þetta sannfærandi saga og því meira sem ég les mér til því meira efast ég um sannleiksgildi hennar. Ég veit ekki alveg hver var að ljúga og af hverju eða til hvers en það er bara svo margt sem gengur ekki upp. Getur verið að Haraldur þessi hafi ekki verið raunverulegur maður heldur skáldsagnapersóna? Mig grunar það. Ég er líka hræddur um að þeir Ingólfur Arnarson og Hrafna-Flóki séu frekar skáldaðir persónugervingar en raunverulegir menn af holdi og blóði.

Ísland var langsíðasta land Evrópu til að vera numið af fólki. Fólk hafði búið í Noregi í 10-15.000 ár áður en því datt í hug að flytja hingað.

Enginn veit því alveg fyrir víst hvaða fólk það var sem nam hér land og af hverju það ákvað að koma hingað. Það eina sem við vitum með nokkurri vissu er að flest kom þetta fólk frá Noregi. Þetta styðja bæði heimildir og vísindalegar rannsóknir. Það er ekki vitað með vissu hvenær nákvæmlega í sögunni þetta gerðist.

Fornleifafræðingar eru sífellt að uppgötva minjar og vísbendingar um mannaferðir og búsetu hér löngu fyrir hið „eiginlega” landnám. En það tekur okkur náttúrlega tíma að meðtaka og melta það. Við stöndum, á ákveðinn hátt, í svipuðum sporum og bókstafstrúarhreyfing biblíufólks þegar fornleifafræðingar byrjuðu að grafa upp steingervinga af dynósárum. Sköpunarsaga Biblíunnar, sem fram að því hafði verið tekið nokkuð trúanlega, minnist ekkert á dynósára.

Fornsögurnar eru okkar Biblíusögur

Það er margt líkt með sköpunarsögu Biblíunnar og sögunni um landnám Íslands. Þar er margt sagt og ýmsu ævintýralegu haldið fram sem engar beinar sannanir eru fyrir. Almennt hefur, hér á landi, verið litið á fornsögurnar okkar sem sagnfræðilegar heimildir um upphaf og sögu landsins. Þótt sú skoðun hafi minna fylgi en áður þá virðast flestir Íslendingar samt trúa því að þótt þarna sé kannski ekki alveg hárrétt sagt frá öllu þá hafi þetta líklega í aðalatriðum gerst nokkurn veginn svona einsog segir í sögunum. Fyrir sumum er þetta jafnvel heilagur sannleikur sem aðeins villutrúarfólk vogar sér að efast um.

Við kennum börnum okkar þessa sögu með nákvæmlega sama hætti og kristinfræði var kennd í eina tíð. Í kennslubókum og fræðsluefni er sjaldnast nokkur fyrirvari um sannleiksgildi upplýsinganna heldur eru þær settar fram sem viðtekinn sannleikur, og ekki nóg með það heldur líka eitthvað sem sé bæði göfugt og merkilegt og okkur sé bara hollt og gott að trúa á.

Í þessari sögu tekur Ingólfur Arnarson að sér hlutverk Adams og verður „fyrsti maðurinn.” En ólíkt Adam, sem var alltaf allsber er Ingólfur alltaf sýndur í fullum herklæðum, með hjálm á hausnum og sverð í slíðri. Við hvern ætlaði hann að skylmast hér? Var hann aldrei hræddur um að detta útbyrðis og sökkva til botns?

Þetta er ákveðinn heilaþvottur sem við íslendingar fæðumst inn í og ölumst upp í. Íslenskar skólabækur eru uppfullar af þessu og þar er alhæft um allskonar. Sama er upp á teningnum í almennri umræðu, ræðum og riti.

Veiðistöðin Ísland

Það er mín skoðun, eftir talsverðan lestur, umræður og heilabrot að Ísland hafi verið verðmæt veiðistöð í fornöld. Að eiga haffært skip á miðöldum hefur ekki verið á færi hvers sem er nema kónga og mjög ríkra höfðingja. Það var ekki nóg að byggja skipið heldur þurfti líka að halda því við og verja það fyrir öðrum. Það þurfti fjölmenna áhöfn sem hafði kunnáttu og reynslu til að sigla skipum slysalaust um úthöfin. Þetta hefur verið alveg gríðarlega vandasöm og dýr útgerð.

Ég held að fyrsta fólkið sem hingað kom hafi verið vinnuflokkar á vegum valdamikilla höfðingja í Evrópu sem var flutt hingað aðallega til að starfa við veiðar og járnframleiðslu og skapa afurðir sem síðan voru seldar á mörkuðum Evrópu. Mig grunar að flest verkafólkið hafi verið frekar réttlaust fólk, húskarlar og þrælar. Með tímanum byggðust smátt og smátt upp veiðistöðvar í kringum landið og fólk sem lifði þar í kring.

Með vaxandi þekkingu, bættum aðstæðum og reynslu jókst framleiðslugetan og um leið þörfin fyrir vinnuafl. Og þar held ég að liggi hin raunverulega ástæða fyrir fólksflutningum hingað; gulrótin sem helst fær fátækt fólk til að flytja búferlum á milli landa: Loforð um vinnu.

Skipakóngarnir, eins og þeirra er siður, hafa fengið vel borgað fyrir að flytja fólkið. Þeir hafa auðvitað haldið áfram að stjórna og fylgjast með eignum sínum og arði en heimahafnir þeirra voru ólíklega hér. Vel getur hugsast að einn og einn vel settur kall hafi sest hér að um ótilgreindan tíma, eins og margir danskir kaupmenn gerðu síðar en uppistaðan í fólkinu var samt fátækt verkafólk.

Ég á mjög bágt með að trúa því að norskir bændur hafi séð tækifæri til stórbúskapar hér upp við Norðurheimskautið. Landnemarnir voru veiðimenn og safnarar áður en þau urðu bændur.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiÁlit