Fjármálaráðherra evruríkjanna funda í dag í Brussel um skuldamál Grikkja. Þeir hafa týnst til fundarins einn af öðrum síðustu mínútur, ásamt Christine Lagarde, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Grikkir lögðu í gær fram sína tillögu um framlengingu á lánasamkomulagi við ESB og AGS með breytingum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tók vel í tillöguna og sagði hana góða byrjun en Þjóðverjar voru ósáttir og sögðu tillöguna langt frá því að vera fullnægjandi.
Fyrir daginn í dag var talað um að ná þyrfti samkomulagi um framtíðina á þessum fundi en samkvæmt Bloomberg er mjög ólíklegt að það gerist. Fréttastofan hefur það eftir embættismanni innan Evrópusambandsins, og segir að það þýði að áfram verði fundað á sunnudag eða mánudag. Talið er líklegt að reynt verði að semja sameiginlega yfirlýsingu um framhaldið og fundum verði haldið áfram á næstu dögum.
This is the moment for a historic political decision for the future of #Europe pic.twitter.com/vdBcv10UXk
— Alexis Tsipras (@tsipras_eu) February 20, 2015
Við komuna til Brussel í dag sagði Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, að grísk stjórnvöld hefðu gengið mjög langt í viðleitni sinni til að ná samkomulagi.
Varoufakis arrives at the eurogroup hoping for a deal: "The Greek government has gone not the extra mile, but the extra 10 miles."
— Jennifer Rankin (@JenniferMerode) February 20, 2015
Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands, sagði hins vegar að málið snérist um traust. „Við þurfum að styrkja traustið á framtíð þessa evrópska samrunaverkefnis fólks í öllum Evrópuríkjum. Það er hið raunverulega verkefni og það er það sem við erum að vinna að með öllum okkar mætti.“
Þýska stórblaðið Der Spiegel segir frá því að Seðlabanki Evrópu sé að undirbúa sig undir það að Grikkir yfirgefi evrusamstarfið. Verið er að teikna upp sviðsmyndir og meta hvernig beri að taka á evrusvæði án Grikklands.
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Francois Hollande Frakklandsforseti funduðu í París í dag og héldu blaðamannafund í kjölfarið. Merkel sagði þar að það væri sameiginlegt markmið allra evruríkjanna að halda Grikklandi inni í evrusamstarfinu. Til þess þyrftu Grikkir þó að gera stórvægilegar umbætur á tillögum sínum að lausn. „Grikkland er á evrusvæðinu og verður að vera áfram á evrusvæðinu,“ sagði Hollande.