Eftir stanslausar lækkanir undanfarna mánuði hækkaði olíuverð allt í einu um 20 prósent á fjórum dögum. Verð á hráolíu lækkaði á nýjan leik í dag, en nú fer fram mikil umræða um það hvort botninum hafi verið náð eða ekki, og hvað sé framundan í þessum málum.
Á föstudag var hráolíutunnan komin niður í 44 Bandaríkjadali, en í gær fór verðið upp í 58 dali. Í dag hefur verðið lækkað á nýjan leik og þegar þetta er skrifað er Brent hráolíutunna seld á um það bil 55 dali.
Believe it or not, oil is in a bull market http://t.co/0B5zzCOl3J pic.twitter.com/Pw73cZeT03
— Quartz (@qz) February 3, 2015
Auglýsing
Þrátt fyrir að hafa hækkað er hráolíuverð samt 50 prósentum lægra en það var síðastliðið sumar. Offramboð á olíu, sem hefur haft mikil áhrif á þróunina undanfarna mánuði, er síst á undanhaldi. OPEC ríkin juku sína framleiðslu í desember og Bandaríkjamenn halda áfram leirsteinsolíuframleiðslu sinni. Hins vegar hefur undanfarið verið dregið úr fjárfestingum hjá stórum fyrirtækjum, eins og BP. Þá hefur vinnu á olíuborpöllum verið hætt víða undanfarið, ekki síst í Bandaríkjunum, sem venjulega er talin ágæt vísbending um ástandið.
Þá er síður en svo samhljómur um það hvort botninum í hráolíuverði hafi verið náð eða ekki. Foreign Policy telur að líklega hafi botninum verið náð í síðustu viku. Yahoo Finance fréttaveitan hefur eftir sérfræðingum að það sé hreinlega ekki vitað hvað er framundan, hægt sé að færa rök fyrir báðum hliðum.