Öll 63 kjörbréfin sem landskjörstjórn gaf út þann 1. október voru staðfest af meirihluta Alþingis í atkvæðagreiðslu á tíunda tímanum. Ríkur þingmeirihluti var fyrir því að staðfesta kjörbréf þeirra sextán þingmanna sem voru kjörnir í Norðvesturkjördæmi eða sem jöfnunarmenn í öðrum kjördæmum.
Við atkvæðagreiðslu um þessi sextán kjörbréf fóru leikar svo að fjörutíu og tveir þingmenn staðfestu kjörbréfin, fimm greiddu atkvæði gegn staðfestingu þeirra og sextán þingmenn kusu að sitja hjá. Þar með var staðfest tillagan sem byggði á áliti meirihluta kjörbréfanefndar, sem samanstóð af fulltrúm Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Flokks fólksins.
Sextán vildu uppkosningu í Norðvestur
Tillaga um uppkosningu í Norðvesturkjördæmi var felld með 42 atkvæðum. Einungis 16 þingmenn vildu að farið yrði að tillögum Þórunnar Sveinbjarnardóttur og Svandísar Svavarsdóttur, fulltrúum Samfylkingar og Vinstri grænna í kjörbréfanefnd, um að kosið yrði að nýju í Norðvesturkjördæmi. Fjórir þingmenn greiddu ekki atkvæði.
Bara Píratar vildu uppkosningu um allt land
Byrjað var á að greiða atkvæði um tillögu Björns Leví Gunnarssonar þingmanns Pírata, um að staðfesta ekki eitt einasta kjörbréf og boða til nýrra kosninga um allt land. Hún var felld með yfirgnæfandi meirihluta, með 53 atkvæðum gegn 6. Fjórir þingmenn greiddu ekki atkvæði.
Áður en gengið var til lokaatkvæðagreiðslu kvöldsins, sem laut að kosningunum umdeildu í Norðvesturkjördæmi og þau sextán kjörbréf sem úrslit hennar snertu, voru greidd atkvæði sérstaklega um kjörbréf 47 kjördæmakjörinna þingmanna, sem sitja í öðrum kjördæmum en Norðvesturkjördæmi.
Þau voru staðfest samhljóða, með 63 atkvæðum.