Lestarfyrirtækið DSB í Danmörku hefur stöðvað allar lestarferðir milli Danmerkur og Þýskalands vegna straums flóttafólks um álfuna. Frá þessu greinir danska ríkisútvarpið, DR. Þetta gildir um báðar leiðir DSB til og frá Þýskalandi, hvort sem það frá Rødbyhavn til Puttgarden eða um Padborg á Suður-Jótlandi.
Þessi tíðindi voru höfð eftir Tony Bispekov, upplýsingafulltrúa DSB, í fréttum DR í dag. Ferðirnar til Þýskalands hafa verið stöðvaðar í óákveðin tíma. Nokkuð hefur verið um að Danir hafi farið á einkabílum yfir landamærin til Svíþjóðar eða Þýskalands og sótt flóttafólk sem eru strandaglópar í öðruhvoru landinu og flutt með sér til Danmerkur. Það er hins vegar bannað og á fólk hættu á fangavist verði það uppvíst af slíku.
Í Rødby hefur lögregla farið um borð í lestir sem komið hafa frá Þýskalandi og skilið vatnsþurfa börn frá foreldrum sínum, og komið í læknishendur. Flóttafólkið heldur sig í lestinni sem stendur kyrr við brautarpallinn og neitar jafnvel matargjöfum frá lögreglunni, segir Jyllands Posten.
Tvær lestir standa kjurrar við brautarpallinn í Rødby. Önnur kom þangað aðfaranótt þriðjudags en hin í nótt með um 150 flóttamenn um borð. Flóttafólkið neitar hinsvegar að fara frá borði og skrá sig í Danmörku sem flóttafólk. Þriðja lestin var um borð í ferjunni frá Þýskalandi og verður stöðvuð í Rødby. Talið er að um 100 flóttamenn séu þar um borð. Jyllands Posten hafði ekki fengið fengið svör frá lögreglunni á Suður-Jótlandi eða í Lálandi.
Flóttafólkið er flest á leið til Svíþjóðar þar sem stjórnvöld eru mun mildari en þau dönsku gagnvart innflytjendum og flóttamönnum frá Sýrlandi. Á sunnanverðu Jótlandi hafa stjórnvöld fyrirskipað flugbann yfir þjóðvegum vegna þess að þar fara nú um meira en 300 flóttamenn á leið sinni til Svíþjóðar. Bannið nær yfir þyrluflug og lágflug. Frá þessu er greint á vef DR.