Málum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) gegn vefverslunum sem selja áfengi til íslenskra neytenda, Sante og Bjórlandi, var í dag vísað frá dómi. Dómarinn í málunum féllst á allan málatilbúnað lögmanna Sante og Bjórlands en hafnaði öllum málatilbúnaði ÁTVR.
Í öðru málinu var Arnari Sigurðssyni, eiganda Sante, stefnt ásamt fyrirtækjunum Sante ehf. og Santewines SAS. Í hinu var fyrirtækinu Bjórlandi einu stefnt.
ÁTVR, sem er ríkisfyrirtæki, taldi að fyrirtækin hafi brotið gegn áfengislögum með starfsemi sinni og brotið á einkarétti sínum til smásölu á áfengi. Ríkisfyrirtækið vildi að Sante og Bjórland myndu láta af viðskiptum með áfengi og að bótaskylda fyrirtækjanna gagnvart sér yrði viðurkennd.
Sante og Bjórland fóru bæði fram á að málum gegn sér yrði vísað frá dómi meðal annars á þeim grundvelli að ÁTVR ætti ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þess. Þá töldu lögmenn þeirra að greinargerð ÁTVR hefði ekki uppfyllt kröfur réttarfarslaga um skýrleika. Auk þess hafði ÁTVR ekki sýnt fram á tengsl meintrar háttsemi stefndu fyrirtækjanna tveggja við „ætlað skaðaverk eða leitt nokkrar líkur að tjóni sínu.“
Ekki hlutverk ÁTVR að hafa eftirlit með einkarétti
Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í dag í málunum tveimur kemur fram samhljóma niðurstaða. Þar er tekið undir sjónarmið Sante og Bjórlands um að ÁTVR hafi ekkert með svona málarekstur að gera.
ÁTVR sýndi ekki fram á tjón
Varðandi viðurkenningu á skaðabótakröfu þá kemst dómurinn að þeirri niðurstöðu að ÁTVR hafi ekki í málatilbúnaði sínum „freistað þess að upplýsa nánar eða leggja fram gögn um það tjón sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna háttsemi stefnda […] Að mati dómsins skorti því verulega á að fullnægt sé þeim skilyrðum sem gerð eru til sönnunar á tilvist tjóns í málum sem höfðuð eru til viðurkenningar á bótaskyldu“.
Til viðbótar tekur dómurinn fram að samkvæmt lögum um starfsemi ÁTVR eigi hún að vera sem hagkvæmust og afla tekna sem nægi til að greiða rekstrarkostnaði og skila hæfilegum arði til ríkissjóðs. „Fjármögnun stofnunarinnar er þannig á grundvelli almennrar tekjuöflunar og arðurinn er íslenska ríkisins, en ekki stefnanda. Er því ekki unnt að líta svo á að stefnandi, sem er ríkisstofnun, hafi af því fjárhagslega hagsmuni að viðhalda einkarétti á sölu áfengis í smásölu enda er það löggjafans að ákveða fyrirkomulag á sölu áfengis í smásölu í landinu.“
Að endingu segir í dómunum að annmarkar og vankantar á málatilbúnaði ÁTVR leiði til að leiði „hver og einn og allir í senn, til þess að óhjákvæmilegt er að vísa máli þessu frá í heild sinni frá dómi“.
ÁTVR er gert að greiða Arnari Sigurðssyni, Sante ehf. og Sante SAS samtals 1.650 þúsund krónur í málskostnað og Bjórlandi 950 þúsund krónur.