Ekki er hægt að líta svo á að Ólöf Helga Adolfsdóttir hafi í reynd haft umboð sem trúnaðarmaður hjá Icelandair er flugfélagið sagði henni upp störfum í ágúst í fyrra og ekki er heldur unnt að leggja til grundvallar að henni hafi verið sagt upp sökum þess hvernig hún beitti sér sem öryggistrúnaðarmaður á vinnustaðnum.
Þetta eru megin niðurstöður Félagsdóms, sem kvað upp dóm í málinu sem varðar uppsögn Ólafar Helgu frá Icelandair í dag. Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Icelandair teljast því sýkn af kröfum Alþýðusambands Íslands, sem settar voru fram fyrir hönd Starfsgreinasambandsins vegna Eflingar stéttarfélags sem rak málið áfram fyrir Ólöfu Helgu.
Engu breyti þótt samstarfsmenn hafi talið Ólöfu trúnaðarmann
Mál Ólafar Helgu vakti töluvert mikla athygli er það kom upp, en stéttarfélagið Efling fór fram á að uppsögn hennar yrði dregin til baka þar sem óheimilt væri fyrir Icelandair að segja upp starfandi trúnaðarmanni. Icelandair bar því hins vegar við að Ólöf Helga hefði ekki lengur haft umboð sem trúnaðarmaður, en hún var kjörin af samstarfsfólki sínu til þess hlutverks í mars 2018 til tveggja ára.
Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ágreiningslaust væri að ekki hefði farið fram kosning á trúnaðarmanni á vinnustaðnum eftir að því tímabili lauk, auk þess sem ekki væri séð að Ólöf Helga hefði verið tilnefnd af Eflingu stéttarfélagi án kosningar eða að upplýsingum um val hennar til áframhaldandi starfa sem trúnaðarmaður starfsmanna hefði verið komið á framfæri við Icelandair.
„Í ljósi þeirra atvika sem rakin hafa verið að framan og hinna skýru ákvæða sem giltu um aðferð við val trúnaðarmanns samkvæmt kjarasamningi er ekki unnt að líta svo á að Ólöf Helga hafi haft stöðu trúnaðarmanns þegar henni var sagt upp störfum í ágúst 2021,“ segir í dómi Félagsdóms.
Einnig er því bætt við að það geti „ekki breytt þessari niðurstöðu þó að a.m.k. einhverjir samstarfsmenn Ólafar Helgu, sem og tilteknir stjórnendur, kunni að hafa litið á hana sem trúnaðarmann“. Vísað er til dómafordæmis úr Hæstarétti hvað þetta atriði varðar.
Ólöf Helga hafði einnig verið svokallaður öryggistrúnaðarmaður hjá Air Iceland Connect áður en henni var sagt upp og taldi sig einnig eiga að njóta verndar vegna uppsagna á þeim grundvelli.
Félagsdómur segir óumdeilt að Ólöf Helga og annar starfsmaður Air Iceland Connect hafi verið kosin í febrúar 2020 til þess að gegna starfi öryggistrúnaðarmanna í öryggisnefnd fyrirtækisins, þó að reyndar sé tiltekið í dómnum að það séu engin merki um að sú nefnd hafi nokkru sinni komið saman.
Dómurinn féllst hins vegar einnig á röksemdir Icelandair þess efnis að þegar starfsemi Air Iceland Connect var felld undir hatt Icelandair hafi umboð öryggisnefndar þeirrar sem var á vegum Air Iceland Connect fallið niður – öryggisnefndin hætt að vera til.
Þrátt fyrir það telur dómurinn að Ólöf Helga hafi áfram, eftir að Icelandair samtvinnaði rekstur innanlandsflugsins við móðurfélagið, átt að njóta þeirrar verndar gegn uppsögn sem staða hennar sem öryggistrúnaðarmaður veitti henni.
Félagsdómur telur hins vegar ekki unnt að leggja til grundvallar að það hafi verið fyrri störf Ólafar Helgu sem öryggistrúnaðarmanns sem hafi verið ástæða uppsagnarinnar, jafnvel þótt ástæða uppsagnarinnar sé sögð „nokkuð á reiki“.
„Þegar upp kom ágreiningur um hvort starfsmenn hlaðdeildar eða farþegaafgreiðslu skyldu annast flutning farþega um borð í flugvélar hafði Ólöf Helga ekki forgöngu um að málið yrði tekið upp á vettvangi öryggisnefndar fyrirtækisins. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að framganga hennar í málinu hafi aðallega byggst á stöðu hennar sem flokksstjóra í hlaðdeild og að öðru leyti sem málsvari starfsmanna deildarinnar enda þótt hún hafi ekki gegnt stöðu trúnaðarmanns,“ segir um þetta atriði í dómi Félagsdóms.
Dómnum þótti rétt að láta málskostnað milli aðila falla niður í ljósi atvika málsins.