Bandarísk ómönnuð geimflaug sem átti að bera tækni- og rannsóknarbúnað til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar sprakk í loft upp þegar hún hafði aðeins risið fáeina tugi metra frá jörðu. Geimskotið var klukkan 22:22 í kvöld að íslenskum tíma. Engar vísbendingar eru um að fólk hafi slasast og fyrstu kannanir á skotpallinum benda til þess að takmarkaðar skemmdir hafa orðið.
Geimskotið var á vegum einkafyrirtækisins Orbital Sciences og flaugin þeirra smíð. Orbital Sciences er eitt fárra einkafyrirtækja sem sinna geimferðum NASA til geimstöðvarinnar, en eftir að Geimskutluáætlun NASA var lögð niður hafa einkafyrirtæki séð um ferðir Bandaríkjamanna til geimstöðvarinnar.
Sex sekúndum eftir að flaugin liftist frá skotpalli Orbital Sciences í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum virðist neisti hafa komist í fullhlaðna eldsneytistanka flaugarinnar. Antares átti samkvæmt áætlunum að fara í loftið á mánudaginn en var frestað þegar bátur fór inn fyrir öryggissvæði tíu mínútum áður en flaugin átti að fara á loft.
Flaugin bar ekki aðeins rúmlega tvö tonn af búnaði fyrir Alþjóðlegu geimstöðina heldur voru um borð gervihnettir sem setja átti á sporbraut um jörðu. Meðal birgða sem átti að flytja í geimstöðina var matur og vatn fyrir geimfara sem sinna rannsóknum í geimnum. Antares-flauginni hafði verið breytt örlítið til að bera enn meiri farangur en fyrri flaugar af sömu gerð.
Geimskotið var fjórða verkefni Orbital Sciences fyrir NASA og hluti af 1,9 milljarða dollara samningi bandarísku geimferðastofnunarinnar við einkafyrirtækið. Space X er einnig á samningi hjá NASA um að sjá geimstöðinni fyrir birgðum.
Fjallað var um geimferðaáætlanir einkafyrirtækja í hlaðvarpsþættinum ÞUKL í Hlaðvarpi Kjarnans fyrr í október.
Bein útstending frá skotstað í Virginíu
Uppfært klukkan 22:55: Ranglega var sagt að fyrirtækið sem stæði fyrir geimskotinu héti Antares. Hið rétta er að það heitir Orbital Sciences en geimflaugin sem sprakk var kölluð Antares.