Síðar í vikunni mun Orka náttúrunnar (ON) opna á ný 156 svokallaðar hverfahleðslur sem staðsettar eru víða um Reykjavíkurborg. Þetta gerist í kjölfar þess að Héraðsdómur Reykjavíkur felldi úr gildi úrskurð kærunefndar útboðsmála fyrr í dag, samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá ON.
Í lok júní úrskurðaði kærunefnd útboðsmála að útboð Reykjavíkurborgar á þessum hleðslustöðvum væri ógilt þar sem ekki var boðið út á evrópska efnahagssvæðinu. Í kjölfarið var ON, sem vann útboðið á sínum tíma, gert að slökkva á hleðslunum.
„Eftir að hafa rýnt í úrskurð kærunefndar taldi ON ljóst að forsendur nefndarinnar fyrir niðurstöðunni væru rangar. Því var ákveðið að fara með málið fyrir héraðsdóm til þess að fá úrskurðinum hnekkt. Flýtimeðferð fékkst á dómsmálinu og í dag féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á sjónarmið ON,“ segir í tilkynningu ON.
Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að málsmeðferð kærunefndar útboðsmála hafi verið verulegum annmörkum háð.
Berglind Rán Ólafsdóttir framkvæmdastýra fyrirtækisins segir, í tilkynningu frá ON, að þetta sé „fyrst og fremst mikið gleðiefni fyrir þá fjölmörgu rafbílaeigendur sem treysta á þessa þjónustu“.
Frítt að hlaða út mánuðinn
Hleðslustöðvarnar hafa verið ótengdar allt frá því í lok júní, en verða tengdar strax í þessari viku. ON hefur ákveðið að hafa hleðsluna fría frá og með næsta föstudegi og út mánuðinn. Er það sagt gert til að „þessi endurnýjuðu kynni rafbílaeigenda af“ hleðslustöðvunum gangi sem best fyrir sig.