Fasteignamarkaðurinn í Noregi, Svíþjóð og Danmörku hefur sýnt sömu merki eftirspurnarþrýstings á síðustu mánuðum. Framboð eigna á sölu mælist nú í metlægðum í Osló og Stokkhólmi og í Danmörku hefur það ekki mælst minna. Þrátt fyrir það hefur áhuginn fyrir íbúðakaupum ekki gefið eftir og hefur því fasteignaverð hækkað hratt.
Mesta velta síðan mælingar hófust
Samkvæmt norska viðskiptablaðinu Dagens Næringsliv hefur veltan á fasteignamarkaði í austurhluta landsins, þar sem höfuðborgin Osló er, aukist hratt á síðustu misserum. Frá miðjum desember í fyrra hafa þar selst um tvö þúsund íbúðir, en það er mesta veltan á svæðinu síðan mælingar á henni hófust árið 2003.
Svipaða sögu er að segja frá hinum Norðurlöndunum, samkvæmt samantekt sænsku síðunnar Dagens Logistik. Þar segir að fjöldi kaupsamninga í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Danmörku í fyrra hafi verið 15-33 prósentum meiri en á árinu 2020.
Í Danmörku seldust yfir sjö þúsund íbúðir í síðustu mánuði, en samkvæmt Boligsiden, sem heldur utan um tölfræði um húsnæðismarkaðinn, er það næstmesta mánaðarlega veltan sem mælst hefur síðan mælingar á henni hófust árið 2010. Síðan bætir við að veltan sé rúmlega fjórðungi meiri en hún var að meðaltali á sama tíma árs árin 2015-2019.
Íbúðum á sölu fækkar
Á sama tíma og fjöldi keyptra íbúða eykst hefur óseldum íbúðum hins vegar fækkað töluvert. Samkvæmt Dagens Næringsliv eru nú rúmlega 800 íbúðir á sölu í Osló, en þær voru um 1.500 talsins áður en faraldurinn hófst í febrúar 2020.
Fjöldi íbúða í Danmörku á sölu hefur einnig minnkað, en þær voru alls rúmlega 22 þúsund talsins í byrjun þessa mánaðar. Framboðið minnkaði um sjö prósent frá því í fyrra og er það nú það lægsta sem Boligsiden hefur mælt.
Í Svíþjóð hefur sams konar þróun átt sér stað. Samkvæmt frétt frá fyrirtækinu Fastighetsbyrån hefur framboðið á íbúðum til sölu verið einstaklega lágt í Stokkhólmi, Gautaborg og Malmö á undanförnum mánuðum. Johan Engström, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir eftirspurnina samt sem áður mikla og ekki hafa minnkað þrátt fyrir óróa á hlutabréfamarkaði og tal um hækkandi stýrivexti.