Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa heldur opinn fund næstkomandi mánudag klukkan 10:30. Þetta kemur fram á vef Alþingis.
Fundarefnið er undirbúningur fyrir rannsókn kjörbréfa og gestur fundarins verður Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands.
Fundurinn verður haldinn í húsnæði nefndasviðs Alþingis í Austurstræti og verður opinn fulltrúum fjölmiðla og almenningi meðan húsrúm leyfir. Bein útsending verður frá fundinum á vef Alþingis og á sjónvarpsrás Alþingis á dreifikerfum Símans og Vodafone, að því er fram kemur á vef Alþingis.
Nefndin hefur það hlutverk að skoða gildi kosninganna í Norðvesturkjördæmi og önnur álitamál en álit nefndarinnar verður síðan borið undir atkvæðagreiðslu í þinginu.
Undirbúningsnefndin er skipuð eftir þingstyrk flokka. Viðreisn og Miðflokkurinn fengu ekki sæti í nefndinni heldur einungis áheyrnarfulltrúa. Sjálfstæðisflokkurinn er með þrjá nefndarmenn, þau Birgi Ármannsson, Vilhjálm Árnason og Diljá Mist Einarsdóttur. Birgir er jafnframt formaður nefndarinnar.
Framsókn er með tvo nefndarmenn, þau Líneik Önnu Sævarsdóttur og Jóhann Friðrik Friðriksson. Inga Sæland er í nefndinni fyrir hönd Flokks fólksins, Svandís Svavarsdóttir fyrir Vinstri græn, Björn Leví Gunnarsson fyrir Pírata og Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrir Samfylkinguna.