Ein húsaröð sem liggur upp við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði er skilin undan því að teljast verndarsvæði í byggð, í tillögu að deiliskipulagi fyrir vesturbæ bæjarins, sem nú er í kynningu. Ástæðan er sögð sú að mögulega þurfi að endurhanna aðkomuna til Hafnarfjarðar og breikka götuna, með tilkomu borgarlínuleiðar og nýrra hjólastíga, samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð skipulagstillögunnar.
Með deiliskipulagstillögunni er þannig opnað á flutning eða niðurrif húsa sem standa vestan megin við Reykjavíkurveg, húsa sem sum hver eru mjög gömul. Fimm þeirra eru byggð fyrir árið 1920. Hafnfirðingar eru ekki allir sáttir með þessa framtíðarsýn.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar og íbúi í þessum elsta hluta Hafnarfjarðar, segir það hreinar línur að húsaröðin við Reykjavíkurveg eigi heima innan verndarsvæðis í byggð.
Hann birti bréf til bæjaryfirvalda á Facebook-síðu sinni á dögunum og segir þar að það sé „fullkomlega fráleit hugsun að rífa eða fjarlægja fjölmörg hús sem með réttu ættu að vera hluti af skilgreindu verndarsvæði í byggð til að leggja meira malbik,“ sama hvort það malbik fari undir strætisvagna fyrirhugaðrar Borgarlínu, hjólastíga eða eitthvað annað.
Í umræðum um málið á samfélagsmiðlum hafa íbúar í sumum þeirra húsa sem reiknað er með að gætu þurft að víkja vegna breikkunar vegarins kvartað undan því að hafa ekki verið upplýstir sérstaklega um málið.
Nennir einhver fjölmiðill að tala um það að bæjarstjórnin í Hafnarfirði reyndi að lauma inn heimild til að rífa 19 heimili, sum í kringum 100 ára gömul, til að gera pláss fyrir meira malbik? Helstu rökin eru þau að það sé hvort sem er svo mikill umferðarhávaði við þau 🤯 pic.twitter.com/GPaDA6lLr3
— Sæunn I. Marinós (hún/she) (@saeunnim) November 29, 2021
Borgarlína og hjólastígar kalli á breytingar
Í deiliskipulagstillögunni segir í umfjöllun um Reykjavíkurveginn að samkvæmt upplýsingum á vef Borgarlínu sé áætlað að þar verði komin borgarlínubraut árið 2030, eftir sömu leið og strætisvagnar aki í dag.
Þá sé Reykjavíkurvegurinn skilgreindur í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem skilgreind stofnleið hjólreiða á höfuðborgarsvæðinu og að áætlanir geri ráð fyrir því að árið 2033 verði búið að koma upp aðskildum hjólastígum meðfram götunni.
„Til þess að hvort tveggja geti orðið að veruleika þarf að gera umtalsverðar breytingar á Reykjavíkurveg sem er á köflum þröngur,“ segir í deiliskipulagstillögunni. Í framhaldi segir að hljóðstig við Reykjavíkurveg sé mjög hátt. Í kjölfarið segir að af þessum sökum séu mörk verndarsvæðis í byggð í vesturbænum í Hafnarfirði dregin inn sem svari einni húsaröð.
Síðasti dagurinn til að gera athugasemdir við deiliskipulagstillöguna er í dag, 30. nóvember, samkvæmt því sem segir á vef bæjarins.