Samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, Röskva, harmar að grundvöllur hafi skapast fyrir stofnun einkarekins lánasjóðs fyrir námsmenn. Þetta segir í ályktun frá Röskvu í tilefni þess að fjármálafyrirtækið GAMMA hefur stofnað lánasjóð fyrir námsmenn.
Í ályktuninni segir:
„Nýlega bárust fregnir af því að nýr einkarekinn lánasjóður hafi verið stofnaður fyrir námsmenn. Einkarekinn lánasjóður er annars eðlis en ríkisrekinn; hann hefur það markmið að græða á nemendum. Í því felast óhagstæðari kjör fyrir nemendur; vextirnir eru mun hærri, mánaðarlegar greiðslur eru ekki tekjutengdar og hjá þessum nýja lánasjóði þarf að greiða lánið upp á 12 árum. Það gefur því auga leið að ekki er á allra færi að taka slíkt lán og því getur lánasjóður af þessari gerð aldrei komið í stað ríkisrekins lánasjóðs.
Þessi nýi lánasjóður býður upp á þann möguleika að taka lán til viðbótar við lán frá LÍN þegar grunnframfærslan dugir ekki, t.d. hjá fjölskyldufólki. Það er með öllu ótækt að foreldrar og aðrir í námi geti ekki framfleytt sér á þeirri grunnframfærslu sem LÍN býður upp á. Með óraunhæfri framfærslu LÍN hefur skapast rými á markaði fyrir einkaaðila að græða á bágri stöðu nemenda.
Röskva vill að stúdentar fái staðfestingu á því að stofnun nýs lánasjóðs muni ekki draga úr starfsemi LÍN. Stofnun lánasjóðsins sýnir svart á hvítu að þörf er á raunhæfari framfærslugrunni námslána LÍN. Þetta höfum við í hagsmunabaráttu stúdenta ítrekað bent á en ríkisstjórnin látið sem vind um eyru þjóta. Nú þegar þetta liggur fyrir krefjumst við svara; hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að sporna við þessari þróun?“
Hámkarkslán þrettán milljónir króna
GAMMA tilkynnti í febrúar um stofnun Framtíðarinnar, námslánasjóðs sem veitir háskólanemum bæði framfærslu- og skólagjaldalán. Framtíðin er fjármögnuð í gegnum skuldabréfasjóði sem eru í stýringu hjá GAMMA. Að baki skuldabréfasjóðunum standa stofnanafjárfestar eins og lífeyrissjóðir og tryggingafélög, eignastýringar og almennir fjárfestar.
Hámarkslán er þrettán milljónir króna, en lágmarkið 500 þúsund króna, en og endurgreiðslutíminn er tólf ár. Byrjað er að greiða lánin til baka einu ári eftir að námi er lokið.
Allir námsmenn sem ætla í háskólanám á Íslandi eða erlendis geta sótt um námslán hjá Framtíðinni. Einnig er starfsnám, endurmenntun og nám með vinnu á Íslandi lánshæft, að því er fram kemur í tilkynningu.
Framtíðin mun bjóða upp á tvær tegundir námslána, annars vegar óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum og hins vegar verðtryggð lán með föstum vöxtum. Sjóðurinn áætlar að veita nokkur hundruð námsmönnum lán á ári.