Straumur verður rofinn af öllum götuhleðslum Orku náttúrunnar (ON) í Reykjavík frá og með mánudeginum 28. júní næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu í dag.
Í henni segir að fyrirtækið sjái sig knúið til þess að taka strauminn af þeim 156 götuhleðslum sem fyrirtækið hefur sett upp víðsvegar í Reykjavík. Það sé gert í kjölfar þess að Ísorka kvartaði yfir því að hleðslurnar væru opnar hverjum sem er gjaldfrjálst. Óvíst er, samkvæmt ON, hvenær hægt verður að hleypa straumi á þær að nýju. Viðskiptavinum ON er bent á að hraðhleðslur þeirra verða enn opnar sem og götuhleðslur í Garðabæ.
Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra ON, segir þetta vera ömurlega stöðu, bæði fyrir þau sem byggt hafa upp þessar götuhleðslur en ekki síður fyrir rafbílaeigendur.
„Þetta er fyrst og fremst að koma niður á þeim fjölmörgu rafbílaeigendum sem geta ekki haft eigin bílastæði við heimili sín til að setja upp heimahleðslur eða hafa einfaldlega ekki efni á því. Það er einlæg ósk mín að aðilar deilu Reykjavíkurborgar og Ísorku komi málum svo skjótt sem unnt er í farveg sem tryggir að deilan tefji ekki það mikilvæga verkefni sem orkuskiptin í samgöngum er,“ segir hún í tilkynningunni.
Sigurður Ástgeirsson, framkvæmdastjóri Ísorku, sendi frá sér yfirlýsingu síðdegis í dag þar sem því er hafnað að fyrirtækið hafi lagt fram kvörtun eða kröfu um að slökkt yrði á hleðslustöðvunum. „Ísorka lagði fram kvörtun til kærunefndar útboðmála 2020. Samhliða rannsókn þeirrar kæru ákvað RVK að krefja ON um að setja stöðvarnar upp vitandi að málið var í rannsókn. Kærunefndir ógildi samninginn og sektaði Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg er sú sem er rót vandans. ON setti stöðvarnar upp að beiðni Reykjavíkurborgar. Ég harma að Ísorka sé gerð ábyrgð fyrir afleiðingum á brotum og ákvörðun Reykjavíkurborgar. Ísorku er það alveg að meinalausu að stöðvarnar standi og hlaði bíla rafbílaeigenda þar til Reykjavíkurborg býður út að nýju.“
Reykjavíkurborg hefði átt að bjóða verkið út á Evrópska efnahagssvæðinu
Forsaga málsins er rakin í tilkynningu ON en Reykjavíkurborg bauð út uppsetningu og rekstur götuhleðsla og tók tilboði frá ON sem bauð lægst í verkefnið. Úrskurðarnefnd útboðsmála komst síðan að þeirri niðurstöðu eftir kæru Ísorku að Reykjavíkurborg hefði átt að bjóða verkið út á Evrópska efnahagssvæðinu. Ekki hafi verið tekið undir önnur sjónarmið Ísorku.
„Samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndar er ON hvorki heimilt að taka gjald fyrir afnot af götuhleðslunum né að sérmerkja bílastæðin sem þær standa við. Í stað þess að slökkva á hleðslunum og þannig gera rafbílaeigendum sem treysta á umræddar hleðslur erfitt fyrir ákvað ON að hætta að rukka og taka niður merkingar við stæðin. Hleðslur yrðu þá aðgengilegar öllum á meðan næstu skref væru metin. Þannig hlítti ON niðurstöðunni en styddi áfram það mikilvæga verkefni sem orkuskiptin í samgöngum er,“ segir í tilkynningunni.
Ísorka hefur nú aftur sent kvörtun til kærunefndarinnar, nú vegna þess hvernig ON hefur brugðist við þeirri niðurstöðu hennar að Reykjavíkurborg hefði átt að bjóða út á evrópska efnahagssvæðinu.
Borgin telur nauðsynlegt að óska eftir því að ON rjúfi strauminn
Í bréfi sem barst ON frá Reykjavíkurborg í morgun segir að vegna athugasemda Ísorku telji borgin nauðsynlegt að óska eftir því að ON rjúfi straum til umræddra hleðslustöðva. Þá segir einnig að Reykjavíkurborg hafi farið þess á leit við kærunefnd útboðsmála að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað. „Á meðan kærunefnd tekur afstöðu til þeirrar beiðni er ráðlegt að ekki sé aðgengi að raforku á umræddum hleðslustöðvum,“ segir í bréfi Reykjavíkurborgar til ON.
ON tekur það sérstaklega fram í tilkynningunni að fyrirtækið hafi ekki markaðsráðandi stöðu og telur sig því ekki skylt að rukka fyrir götuhleðslurnar. Bendir fyrirtækið á að bæði Ísorka og Orkusalan séu með hleðslustaura víða um borg þar sem rafmagn er gefið.
Þetta „mun leiða til mikilla óþæginda fyrir íbúa borgarinnar“
Reykjavíkurborg hefur einnig sent frá sér tilkynningu um málið en borgin hefur, eins og áður segir, farið fram á frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar útboðsmála frá 11. júní sem kveður á um óvirkni samnings Reykjavíkurborgar við ON um uppsetningu og rekstur á hleðslustöðvum frá úrskurðardegi.
„Uppsetning hleðslustöðva og bætt aðgengi að orku víðsvegar um Reykjavík er ætlað að hvetja borgara til orkuskipta í samræmi við markmið borgarinnar á sviði orkumála um að borgin verði kolefnislaus árið 2040. Fjöldi rafbíla hefur á stuttum tíma farið vaxandi innan Reykjavíkur en samkvæmt tölum frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda voru rafbílar um 45,5 prósent nýskráðra bíla á fyrstu fimm mánuðum 2021.
Uppsetning og rekstur hleðslustöðva sem boðnar voru út í útboðinu er ætlað að mæta þörfum þeirra sem ekki geta hlaðið bíla sína við heimili sín og gera þeim kleift að eiga og reka rafbíla. Krafa um tafarlausa óvirkni samningsins mun leiða til mikilla óþæginda fyrir íbúa borgarinnar sem nota þær 156 hleðslustöðvar sem ON rekur samkvæmt samningnum, og munu nú þurfa að loka fyrir aðgang að, þótt óljóst sé hversu lengi sú lokun muni vara,“ segir í tilkynningu Reykjavíkurborgar.
Kanna grundvöll þess að láta reyna á lögmæti úrskurðarins
Reykjavíkurborg telur að sérstakar ástæður réttlæti að beiðni um frestun á réttaráhrifum verði tekin til greina. Í fyrsta lagi hafi aðalskylda samningsins um uppsetningu hleðslustöðva þegar verið uppfyllt að næstum öllu leyti og þjónusta verið við borgarbúa til samræmis við ákvæði samningsins um nokkurt skeið. Því sé niðurstaða úrskurðarins verulega íþyngjandi fyrir aðila máls og íbúa og gesti Reykjavíkur.
Í öðru lagi sé fyrirséð að óvirkni samningsins, jafnvel þótt hún kunni einvörðungu að vara um skamman tíma, muni leiða til þess að eigendur rafbíla sem hafa fjárfest í þeim í trausti þess að eiga auðvelt aðgengi að hraðri hleðslu þeirra eigi nú erfiðara um vik með að nýta sér þá.
Í þriðja lagi hafi ákvörðun kærunefndar útboðsmála frá 22. október síðastliðnum þar sem kröfu Ísorku ehf. um að umrætt útboð yrði stöðvað um stundarsakir verið hafnað. Báðir samningsaðilar, Reykjavíkurborg og ON, hafi því í góðri trú haldið áfram með að efna samninginn sem komst á í kjölfar hins kærða útboðs.
Af hálfu Reykjavíkurborgar stendur yfir vinna við að kanna grundvöll þess að láta reyna á lögmæti úrskurðarins sem eins og áður hefur komið fram, lýtur að áætlaðu verðmæti samnings, kostnaðaráætlun, og hvort bjóða hefði átt út sérleyfissamning á Evrópska efnahagssvæðinu í stað almenns útboðs sem fór fram innanlands. Samhliða því sé unnið að undirbúningi nýs útboðs.