Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur sent tölvupóst á alla þingmenn og óskað eftir meðflytjendum við þingsáætlunartillögu sína um móttöku flóttafólks. „Í ljósi vaxandi umræðu um þá skelfingu sem rekur nú vaxandi fjölda fólks á flótta undan stríði og óöld sendi ég ykkur þingsáætlunartillögu mína um móttöku flóttafólks. Í tillögunni, sem samin var í vor og dreift til þingmanna sem sitja í nefnd um endurskoðun útlendingalaga og aftur í síðustu viku, er talað um 500 manns en í ljósi þess að vandinn vex með viku hverri tel ég að það megi endurskoða þann fjölda. Þingmenn Samfylkingarinnar, Birgitta Jónsdóttir og Páll Valur Björnsson hafa þegar samþykkt meðflutning. Ég óska hér með eftir meðflutningi fleiri þingmanna og úr öllum flokkum. Hér er um stærsta mannúðarmál okkar tíma að ræða,“ segir í tölvupósti Sigríðar Ingibjargar.
Stjórnvöld hafa þegar samþykkt að taka á móti 50 flóttamönnum á þessu ári, en vaxandi þrýstingur, meðal annars að hálfu þingmanna, er nú uppi um að taka á móti fleiri flóttamönnum, meðal annars vegna þess hve vandi flóttamanna sem flýja stríðshrjáð svæði í Sýrlandi, Írak og Afganistan er aðkallandi.
Ban Ki-Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hvatti í gær þjóðir heimsins til þess að gera mun meira fyrir flóttamenn, stórefla neyðaraðgerðir og hraða uppsetningu flóttamannabúða, meðal annars í Evrópu.