Helga Vala telur að komin sé upp sú staða á Alþingi að forseti þingsins eigi að gera hlé á þingfundinum til þess að formenn flokka á Alþingi geti sest niður og tekið ákvörðun um það að fram fari fagleg rannsókn á sölunni á Íslandsbanka. Þetta kom fram í máli hennar rétt í þessu undir liðnum fundarstjórn forseta á Alþingi.
„Við þurfum að komast að sameiginlegri ákvörðun um það að rannsóknarnefnd Alþingis verði skipuð,“ sagði hún en fjölmargir þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku undir með henni.
Vísaði Helga Vala í frétt Kjarnans sem birtist í dag þar sem Sigríður Benediktsdóttir, sem sat í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið, segir að sala á hlutum í Íslandsbanka til lítilla fjárfesta í lokuðu útboði brjóti í bága við lög um sölumeðferð eignarhluta ríkis í fjármálafyrirtækjum.
Sigríður segir að á grundvelli ákvæða laganna verði einhver að axla ábyrgð á að hafa heimilað söluna og auk þess þurfi að rifta þessum viðskiptum við einstaklinga og félög, enda séu viðskiptin ekki í samræmi við lög og kaupendum og miðlendum hefði átt að vera það ljóst sem og því stjórnvaldi sem heimilaði þetta.
Helga Vala hélt áfram: „Ég geri þá kröfu að við tökum núna hlé á þingfundi til þess að formenn flokka sem eiga sæti á Alþingi geti nú sest niður og komist að samkomulagi um að hér dugir ekkert annan en rannsóknarnefnd Alþingis til þess að fara ofan í saumana á þessu. Þetta er spilling, frú forseti. Það lítur út fyrir að hér hafi lög verið brotin. Við verðum að taka þetta alvarlega.“
Margir þingmenn í stjórnarandstöðunni tóku undir orð Helgu Völu og óskuðu eftir hlé á þingfundi til að fara yfir málið og að skipuð yrði rannsóknarnefnd Alþingis.
Uppfært klukkan 16:05: Forseti Alþingis hefur orðið við ósk þingmanna stjórnarandstöðunnar að gera hlé á þingfundi og ræða við þingflokksformenn.