Þorbjörg Sigríður Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, hefur lagt fram fyrirspurn til mennta- og barnamálaráðherra um heildarkostnað ríkissjóðs vegna dómsmáls íslenska ríkisins á hendur Hafdísi Helgu Ólafsdóttur.
Hafdís Helga var á meðal umsækjanda um stöðu ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneyti sem auglýst var til umsóknar í júní 2019. Þann 1. nóvember sama ár var Páll Magnússon skipaður í starfið. Hafdís Helga kærði þá niðurstöðu til kærunefndar jafnréttismála þar sem hún taldi ljóst að reynsluminni og minna menntaður karlmaður hefði verið ráðin í starfið sem hún sóttist eftir.
Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu 2020 að Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, hefði brotið jafnréttislög þegar hún skipaði Pál Magnússon í embætti ráðuneytisstjóra. Lilja ákvað að stefna kærandanum persónulega í nafni íslenska ríkisins til að fá úrskurðinum hnekkt, tapaði fyrir héraðsdómi og ákvað að áfrýja til Landsréttar.
Þar átti að taka málið fyrir í 28. febrúar en nokkrum dögum áður en málflutningur átti að hefjast ákvað Ásmundur Einar Daðason, sem tók við málarekstrinum, að semja um málalok og greiða Hafdísi Helgu 2,3 milljónir króna í miskabætur.
Kærunefnd jafnréttismála, héraðsdómur, áfrýjun, Landsdómur og samkomulag um miskabætur
Í fyrirspurn sinni óskar Þorbjörg eftir upplýsingum um kostnað íslenska ríkisins vegna meðferðar málsins hjá kærunefnd jafnréttismála, kostnað við rekstur málsins fyrir héraðsdómi, þar á meðal laun setts ríkislögmanns og málsvarnarlaun verjanda stefndu.
Í mars í fyrra hafnaði héraðsdómur Reykjavíkur öllum málsástæðum Lilju og sagði í niðurstöðu sinni að ekki hafi verið fyrir hendi neinir „annmarkar á málsmeðferð kærunefndarinnar sem leitt geti til ógildingar á úrskurði hennar.“
Lilja ákvað að áfrýja dómnum rúmum fjórum klukkustundum eftir að hann hafði fallið. Þar með lá fyrir að málið yrði í áfrýjunarferli að minnsta kosti fram yfir þingkosningar, sem fram fóru 25. september síðastliðinn. Í fyrirspurn sinni óskar Þorbjörg eftir upplýsingum um kostnað vegna áfrýjunar og meðferðar málsins í Landsrétti, þar á meðal laun setts ríkislögmanns og málsvarnarlaun verjanda stefndu.
Þá óskar Þorbjörg einnig eftir upplýsingum um kostnað íslenska ríkisins vegna samkomulagsins sem gert var við Hafdísi Helgu í aðdraganda þess að fallið var frá málinu nokkrum dögum áður en til málflutnings kom.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans nam kostnaður ríkisins við rekstur málsins fyrir héraðsdómi alls 8,7 milljónum króna. Áætlað var að kostnaður vegna áfrýjunar til Landsréttar yrði á bilinu 900 þúsund krónur til 1,2 milljónir króna án virðisaukaskatts. Til viðbótar bætist sá kostnaður sem fellur til vegna greiðslu miskabóta.