Alþingismaðurinn Óttarr Proppé er einn í framboði til formanns Bjartrar framtíðar á ársfundi flokksins sem fram fer í dag. Áður hafði Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði og sveitastjórnarfulltrúi flokksins þar, tilkynnt um framboð til forystustarfa fyrir flokkinn, meðal annars í embætti formanns. Samkvæmt frétt sem birtist á heimasíðu Bjartrar framtíðar fyrir skemmstu kemur hins vegar fram að Guðlaug sækist nú einvörðungu eftir embætti stjórnarformanns flokksins. Það gera Brynhildur S. Björnsdóttir (gjaldkeri og varaþingmaður Bjartrar framtíðar), Preben Pétursson (varaþingmaður Bjartrar framtíðar) og Matthías Freyr Matthíasson.
Óttarr tekur við formennsku af Guðmundi Steingrímssyni, sem er ekki í framboði á fundinum. Brynhildur Pétursdóttir verður nýr þingflokksformaður Bjartrar framtíðar. Um það var tekin ákvörðun á þingflokksfundi í gær. Hún tekur við af Róberti Marshall.
Kosið verður um formann og stjórnarformann Bjartrar framtíðar klukkan 14:30 í dag. Úrslit verða kynnt klukkan 16:50 og hægt er að horfa á beint streymi frá fundinum hér að neðan.
https://www.youtube.com/watch?v=J9YtX6vqIHc
Óttarr Proppé tilkynnti um framboð sitt til formanns 28. ágúst síðastliðinn með stöðuuppfærslu á Facebook.
Nokkur ólga hefur verið innan Bjartrar framtíðar undanfarin misseri, og gagnrýndi Heiða Kristín Helgadóttir, fyrrum stjórnarformaður flokksins, Guðmund Steingrímsson, formann hans, vegna slæmrar stöðu flokksins í viðtali við Kjarnann, en flokkurinn mælist nú með aðeins fjögurra prósenta fylgi. Miðað við það fylgi myndi Björt framtíð ekki ná inn manni í komandi kosningum. Flokkurinn mældist með um 20 prósent fylgi í könnunum í fyrrahaust.
Í kjölfar gagnrýni sinnar á Guðmund sagðist Heiða Kristín opin fyrir því að sækjast eftir formannsembættinu ef vilji væri fyrir því hjá flokksmönnum. Guðmundur tilkynnti í kjölfarið að hann hefði engan áhuga á formannsslag og myndi leggja fram tillögu um að æðstu embætti flokksins myndu róterast. Þá tillögu ætlar hann ennþá að leggja fram á ársfundi Bjartrar framtíðar í byrjun september. Verði sú tillaga samþykkt mun starf formanns og þingflokksformanns róterast á milli sex þingmanna Bjartrar framtíðar en aðrir gegna starfi stjórnarformanns. Guðmundur hefur nú ákveðið að leggja tillöguna ekki fram til atkvæðagreiðslu á ársfundinum heldur að vísa henni til nýrrar laganefndar flokksins til umfjöllunar.
Skömmu áður hafði Guðmundur greint frá því að hann ætli að hætta sem formaður Bjartrar framtíðar á ársfundinum. Róbert Marshall mun einnig segja af sér sem þingflokksformaður flokksins.
Heiða Kristín tilkynnti svo þann 26. ágúst að hún ætli ekki að bjóða sig fram til formanns flokksins. Í bréfi til flokksmanna, sem hún birti einnig á Twitter og Facebook, kom fram að breytingarnar sem flokkurinn sé að ganga í gegnum snúist ekki um hana eða hennar metnað heldur um það að flokkurinn geti endurvakið áhuga kjósenda og fundið neistann sem til þarf til að hrífa aðra með.
Ég hef ákveðið að bjóða mig ekki fram til formanns Bjartrar framtíðar. Breytingarnar sem BF er að ganga í gegnum snúast...Posted by Heiða Kristín on Wednesday, August 26, 2015
„Metnaður minn liggur í því að leggja því verkefni lið og ég met stöðuna þannig að það verði best gert með því að ég taki sæti á Alþingi í haust í fæðingarorlofi Bjartar Ólafsdóttur og veiti nýrri forystu stuðning til góðra verka. Þar vil ég sjá konu fremsta meðal jafningja.“ Hún sagði einnig að sá dagur kunni að koma að hún bjóði sig fram til forystu, en sá tímapunktur sé ekki núna.