Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, er tilbúinn að taka að sér forystustörf í flokknum verði hann kallaður til þess. Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, segist einnig vera reiðubúin til að verða formaður flokksins. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Í Fréttablaðinu segist Óttar þó ekki hafa persónulegan metnað fyrir því að verða formaður þótt hann sé opinn fyrir því að "taka ábyrgð á Bjartri framtíð". Þar er einnig rætt við Brynhildi Pétursdóttur, þingmann Bjartrar framtíðar, sem segist ekki vera búin að ákveða hvort hún sækist eftir formennsku en neiti því ekki að það hafi verið rætt.
Það bætast þar með í hóp með Heiðu Kristínu Helgadóttur, annars stofnanda Bjartrar framtíðar og varaformanns flokksins, sem hugsar það nú stíft að bjóða sig fram til formanns.
Greint var frá því um helgina að Guðmundur Steingrímsson þingmaður muni hætta sem formaður Bjartrar framtíðar þann 5. september næstkomandi þegar ársfundur flokksins verður haldinn í Reykjavík. Róbert Marshall mun einnig segja af sér sem þingflokksformaður flokksins. Er þetta sameiginleg ákvörðun þeirra og vilja þeir með þessu veita öðrum svigrúm til að stýra flokknum.
Síðastliðinn fimmtudag hélt flokkurinn fund þar sem staða flokksins var rædd. Um sjötíu manns mættu á fundinn og þar tilkynnti Guðmundur að hann myndi ekki bjóða fram krafta sína áfram sem formaður flokksins.
Gagnrýni Heiðu Kristínar setti allt af stað
Nokkur óánægja hefur verið með gang mála innan Bjartrar framtíðar undanfarin misseri, og gagnrýndi Heiða Kristín Helgadóttir, sem áður var í forystu flokksins, Guðmund formann vegna slæmrar stöðu flokksins í viðtali við Kjarnann, en flokkurinn mælist nú með aðeins 4,4 prósent fylgi.
Miðað við það fylgi myndi Björt framtíð ekki ná inn manni í komandi kosningum. Flokkurinn mældist með um 20 prósent fylgi í könnunum í fyrrahaust.
Í kjölfar gagnrýni sinnar á Guðmund sagðist Heiða Kristín opin fyrir því að sækjast eftir formannsembættinu ef vilji væri fyrir því hjá flokksmönnum. Guðmundur tilkynnti í byrjun síðustu viku að hann hefði engan áhuga á formannsslag og myndi leggja fram tillögu um að æðstu embætti flokksins myndu róterast. Þá tillögu ætlar hann að leggja fram á ársfundi Bjartrar framtíðar í byrjun september. Verði sú tillaga samþykkt mun starf formanns og þingflokksformanns róterast á milli sex þingmanna Bjartrar framtíðar en aðrir gegna starfi stjórnarformanns.
Heiða Kristín tilkynnti síðan um helgina að hún ætli sér að taka sæti Bjartar Ólafsdóttur þingmanns sem er komin í fæðingarorlof. Hún tók þá ákvörðun í kjölfar þess að Guðmundur ákvað að stíga til hliðar. Heiða Kristin hugsar það nú stíft að bjóða sig fram til formanns.