Eins og flestum er í fersku minni kom Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fram með illa undirbúið frumvarp um náttúrupassann sælla minninga, sem hvorki naut stuðnings stjórnarþingmanna né ferðaþjónustunnar. Ólíklegt verður að teljast að frumvarpið nái fram að ganga miðað við andstöðuna sem það mætti, og er málið allt hið neyðarlegasta fyrir ráðherra ferðamála sem hefur gerst afturreka með málið. Henni fannst í alvörunni góð hugmynd að rukka Íslendinga um aðgang að náttúrunni.
Nú hefur hún ákveðið að gera fjárfestingasamning við fyrirtæki sem hyggur á 3000 tonna bleikjueldi á Reykjanesi. Félagið er í eigu frænda Bjarna Benediktssonar, sama frændans og kom að kaupunum á hlut Landsbankans í Borgun sem seldur var bakvið luktar dyr og vakti mikla athygli og þá ekki neitt sérstaklega jákvæða.
Fyrir utan það að veita fyrirtækinu fjárfestingarsamning sem er án hliðstæðu miðað við hlutfall ívilnanna sem í honum felast af heildarfjárfestingu, að fyrirhugað bleikjueldi sé í kjördæmi ráðherrans, og að samningurinn sé líklegur til að skekkja samkeppni í greininni, veltir maður fyrir sér hvort þetta hafi í raun og veru verið góð hugmynd svona í stóra samhenginu.
Pæling Kjarnans er þessi: Á hvaða vegferð er iðnaðar- og viðskiptaráðherra? Nýtur umdeildi fjárfestingasamningurinn sem hún var að gera, sem seint verður talinn í anda hægri-pólitíkur, stuðnings flokkssystkina hennar? Eða er samningurinn dæmi um mál sem betur hefði mátt skoða áður en haldið var af stað? Stefnir ráðherra kannski ótrauð á að verða pólitískt eyland?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.