Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Það er óhætt að segja að sitt sýnist hverjum um frumvarp Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, ráðherra ferðamála, um náttúrupassann svokallaða. Eftir að fyrstu umræðu um frumvarpið lauk á þingi var það sent til umfjöllunar í atvinnuveganefnd Alþingis, þar sem flestir reikna nú með að það taki nokkrum breytingum í ljósi töluverðrar andstöðu við frumvarpið. Ragnheiður Elín hefur meira að segja sjálf sagst opin fyrir því að frumvarpið taki breytingum.
Talið er að fjárfestingaþörf vegna náttúruverndar, uppbyggingar ferðamannastaða og öryggismála nemi rúmlega einum milljarði króna á ári, í það minnsta á meðan verið er að ná tökum á ástandinu.
Til að fjármagna uppbygginguna hafa margir valkostir verið nefndir. Meirihluti félagsmanna hjá Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF) vildi að komið yrði á hóflegum komugjöldum, stjórn SAF hunsaði vilja meirihlutans og lagði til að gistináttagjaldið yrði hækkað, aðrir hafa talað fyrir því að ferðaþjónustan komi sjálf á fót sérstökum sjóði sem fjármagni uppbygginguna, og enn aðrir hafa talað um að ferðaþjónustufyrirtækin sjálf greiði fyrir „afnot af auðlindinni.“
Skyndileg mildun ráðherra gagnvart mögulegum breytingum á Náttúrupassanum er vafalaust til marks um að hún sé nú hægt og sígandi að átta sig á því að það muni aldrei ríkja almenn sátt á meðal Íslendinga um að borga fyrir að njóta náttúrunnar. Þó það kunni að vera svolítil einföldun, þá snýst málið í grunninn einmitt um það hjá svo mörgum.
Innan ferðaþjónustunnar áætla menn að hækkun virðisaukaskatts og niðurfellingar á ýmsum undanþágum ferðaþjónustufyrirtækja um síðustu áramót skili ríkissjóði 3-5 milljörðum króna í auknum skatttekjum á ári. Geirinn skilaði áður tugum milljarða í þjóðarbúið.
Hér er pæling: Er ekki bara eðlilegt að ríkissjóður láti lítinn hluta af þeim miklu skattekjum sem hann hefur af ferðaþjónustunni renna til viðhalds og uppbyggingar ferðamannastaða á Íslandi? Af hverju vill hægri/miðju stjórnin auka skattbyrði á þegna landsins enn frekar, til að standa straum af fjárfestingum í atvinnugrein sem skilar orðið hvað mestu til þjóðarbúsins?
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.