Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Haustið 2008 þjóðnýtti breska ríkið Royal Bank of Scotland að mestu, eða 83 prósent hlut. Ástæðan var sú að bankinn var að verða gjaldþrota í hremmingum á fjármálamarkaði, eftir mikla uppsveiflu árin á undan. Breska ríkið á nú 79 prósent hlut í þessum fornfræga banka. Í fyrra tapaði bankinn 3,5 milljörðum punda, 714 milljörðum króna, samkvæmt nýbirtum tölum. Þrátt fyrir það greiddi bankinn völdum starfsmönnum 421 milljón punda, jafnvirði um 85 milljarða króna, í bónusgreiðslur.
Bréfritari saknar þess að það fari ekki fram, djúp og greinandi umræða um það hjá bankamönnum - sem tilheyra eina geiranum í veröldinni sem býr við viðvarandi þjóðnýtingu á tapi en einkavæðingu gróða - hvort þeir haldi virkilega að þeir séu einhverjir yfirburðamenn sem eigi skilið að fá ævintýraleg laun, miðað við aðrar stéttir (sem meðal annars eru raunverulega að skapa virðisaukandi verðmæti). Bendir eitthvað til þess? Í hverju, nákvæmlega, felst réttlætingin á bónusgreiðslunum, t.d. ofan í slæma rekstrarniðurstöðu? Bréfritari getur ekki betur sé en að þetta sé hluti af blekkingu fjármálageirans sem enginn þorir að snerta eða afmá. Sem er undirliggjandi ríkisábyrgð á öllu saman, alveg sama hvort það gangi vel eða illa, og líka alveg sama hvort eignarhaldið er að formi til hjá hinu opinbera eða bara fólki í út í bæ!
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.