Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fjármála- og efnahagsráðuneyti Bjarna Benediktssonar hefur nú umsjón með vinnu sem miðar að því að banna verðtryggð lán til neytenda með jöfnum greiðslum, til lengri tíma en 25 ára. Þá hefur ríkisstjórnin sömuleiðis áform um að lengja lágmarkstíma nýrra verðtryggðra neytendalána í allt að tíu ár og takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra lána. Þá skal einnig stefnt að því að auka kerfislæga hvata til töku á óverðtryggðum lánum frekar en verðtryggðum.
Allt er þetta í samræmi við hatur Framsóknarflokksins á verðtryggingunni, enda margir innan raða hans sem kenna verðtryggingunni um ófarir sínar eftir efnahagshrunið.
Pælingin er þessi: Eru þessar aðgerðir í alvörunni jafn nauðsynlegar og brýnar og Framsóknarflokkurinn vill meina? Er gríðarlega mikilvægt að banna verðtryggð húsnæðislán sem býsna margir eru með akkúrat núna þegar verðbólga hefur mælst undir markmiðum Seðlabankans tólf mánuði samfleytt? Samhliða lækkandi verðbólgu hefur fasteignaverð hækkað mjög skarpt og aukið um leið hreina eign fasteignaeigenda í húsnæði sínu umtalsvert, einmitt vegna verðtryggingarinnar!
Þá virðist þjóðin sömuleiðis halla sér frekar að verðtryggðu lánunum frekar en þeim óverðtryggðu samkvæmt Fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands. Væri ekki meira vit í því að bjóða neytendum upp á val á milli verðtryggðra og óverðtryggðra húsnæðislána? Einhverja lausn verður í það minnsta að finna sem felur ekki í sér óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum, eða með skammtímabindingu, í verðbólgubælinu Íslandi, sem aðalvalkost.
Verðtryggingin kom auðvitað illa við marga þegar uppblásin íslensk króna sprakk með miklum hvelli við hrun íslenska fjármálakerfisins, en verðtryggð húsnæðislán nýtast áfram mörgum sem ekki treysta sér í hærri greiðslubyrði sem fylgir óverðtryggðum lánum með breytilegum vöxtum. Verðbólga og verðlaus dvergmynt verða áfram helstu áskoranir íslenskra stjórnvalda og eitt helsta böl íslenskra heimila. Það mun ekki breytast þótt verðtryggingunni verði kastað á haugana.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.