Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu mætti í gær í viðtal í þáttinn Eyjuna á Stöð 2. Flestir fjölmiðlar hafa reynt að ná tali af lögreglustjóranum Sigríði Björk, en aðeins Morgunblaðinu og Eyjunni hefur tekist það. Fréttamaður á Stöð 2 greindi meðal annars frá því á Twitter í gær að fréttastofan þar hefði dögum saman reynt að fá Sigríði í viðtal, án árangurs. Samt yrði hún í þættinum hjá Birni Inga á Stöð 2, rétt fyrir fréttirnar. Fréttastofan gerði svo vel í því að sýna tilraun sína til þess að fá Sigríði í viðtal í dag, sem bar ekki árangur þrátt fyrir að búið væri að hitta á hana augliti til auglitis.
Þetta er alls ekki í fyrsta skipti sem fjölmiðlar reyna dögum saman að ná í Sigríði Björk án árangurs. Samt sagði hún í þætti Björns Inga að hún væri alls ekki á flótta undan fjölmiðlum.
Sigríði Björk hefur verið tíðrætt um að hún aðhyllist stjórnunarstíl sem kallist þjónandi forysta. Ef marka má internetið einkennist þjónandi forysta af því að mæta þörfum og óskum þeirra sem unnið er með og starfað fyrir. Sigríður Björk starfar fyrir íslenskan almenning, og íslenskur almenningur hefur aðgang að embættismönnum eins og henni í gegnum fjölmiðla. Samræmist það þjónandi forystu að tala bara við valda fjölmiðla og neita bara að ræða við hina? Er það þjónusta við almenning?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.