1,4 milljarður manna í heiminum er virkur á Facebook í hverjum mánuði. Þeim fjölgaði um 13 prósent á árinu 2014. Hagnaður fyrirtækisins í fyrra var um 385 milljarðar króna. Aukningin er fyrst og fremst vegna auglýsingatekna sem rúmlega tvöfölduðust á árinu. Um 70 prósent af auglýsingatekjunum er tilkomin vegna auglýsinga sem birtast í snjallsímum.
Og Facebook er alls ekki hætt í sókn sinni að því að verða ráðandi vettvangur fyrir birtingu auglýsinga í heiminum. Allir sem skráð hafa sig inn á Facebook eftir 1. janúar 2015 hafa til að mynda veitt fyrirtækinu heimild til að safna alls kyns upplýsingum um sig sem Facebook mun nota til að gera auglýsingar sínar einstaklingsmiðaðri og markvissari. Á meðal þeirra upplýsinga eru IP-tölur, tölvupóstar, vefsíðuheimsóknir, símtöl og sms-smáskilaboð.
Íslenskur auglýsingamarkaður hefur ekki farið varhluta af þessari ásókn Facebook. Í tölum sem PIPAR/TBWA birti nýverið, og sýna skiptingu birtingarfjár á milli mismunandi tegunda fjölmiðla hérlendis, kom fram að um 26 prósent þess fari í birtingar á netmiðlum. Af því hlutfalli fer 29 prósent í birtingu á erlendum vefsíðum, sérstaklega Facebook og Google, sem hafa sótt mjög hratt inn á íslenska markaðinn undanfarin misseri.
En Facebook er ekki bara að herja á íslenskan auglýsingamarkað. Þessi vinsælasti samfélagsmiðill heims virðist líka stýra fjölmiðlanotkun stórs hluta landsmanna. Á fundi VÍB um breytt umhverfi fjölmiðla, sem haldin var í Hörpu í gær, kom meðal annars fram í máli Sævars Freys Þráinssonar, forstjóra 365 miðla, að 48 prósent af allri umferð sem kemur inn á Vísi.is, næstvinsælustu netsíðu landsins, komi frá Facebook. Magnús Halldórsson, blaðamaður Kjarnans, opinberaði að rúmlega 60 prósent af allri umferð Kjarnans komi frá Facebook og Svanhildur Gréta Kristjánsdóttir frá Blæ sagði að 80-90 prósent af öllum sem heimsóttu fjölmiðilinn sem hún stýrir komi í gegnum Facebook.
Facebook hefur því, vægt til orða tekið, umbylt umhverfi fjölmiðla og því hvernig notendur þeirra nálgast efnið sem þeir vilja lesa.