Hin hörmulega staða sem er uppi hjá Reykjanesbæ hefur vart farið framhjá neinum. Sveitarfélagið skuldar 40 milljarða króna og greiðslufall blasir við því ef ekki tekst að semja við kröfuhafa um að gefa skuldir eftir. Sá kröfuhafi sem er langstærstur er eignarhaldsfélagið Fasteign, félag sem Reykjanesbær og fleiri sveitarfélög seldu fasteignir sínar inn í og leigðu síðan til baka með því að greiða evrur fyrir.
Við hrunið var ljóst að hinn skrýtna hugmynd um Fasteign var ekki að ganga upp og vinda þyrfti ofan af vitleysunni. Í janúar 2013 lauk síðan langri og strangri fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Með því að lánveitendur afskrifuðu nokkra milljarða, einhverjar eignir hurfu út gegn því að skuldir fylgdu með, öllum leigusamningum var breytt úr evrum í krónur og kaupréttur leigutaka á eignum sem þeir höfðu selt Fasteign var lækkaður verulega.
Eftir endurskipulagninguna var Reykjanesbær stærsti einstaki eigandi félagsins með 78,4 prósent hlut. Hin sveitarfélögin sem voru inni í félaginu hafa síðan þá nýtt sér kaupréttarákvæði og keypt fasteignir sínar til baka.
Reykjanesbær situr hins vegar enn í frekar rosalegri súpu. Leiguskuldbindingar sveitafélagsins, sem seldi allar fasteignir sínar inn í Fasteign á sínum tíma, námu í fyrra sumar um 13,7 milljörðum króna. Nú hefur sveitarfélagið boðað nýjar viðræður við kröfuhafa sína sem eiga að standa fram að páskum hið minnsta. Pælingin er því þessi: er Reykjanesbær að fara að fá niðurfelldar skuldir eftir að öll hin sveitarfélögin átta sem voru í félaginu eru búin að kaupa eignir sínar á fullu verði til baka?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.