Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra var lengi virkur í viðskiptalífinu á Íslandi. Hann sagði skilið við það í lok árs 2008 til að einbeita sér að því að vera stjórnmálamaður, og ekkert við það að athuga.
Tengsl fjölskyldu hans við atvik í viðskiptalífinu sem þykja orka tvímælis eru hins vegar sífellt að vefjast fyrir Bjarna á stjórnmálaferlinum. Fyrst var það Vafningsmálið, þar sem Bjarni skrifaði undir veðskjöl fyrir hönd ættingja sinna og þurfti fyrir vikið að bera vitni í sakamáli. Næst kom Borgunar-málið svokallaða. Þar seldi Landsbankinn, sem er í eigu ríkisins, hlut sinn í greiðslukortafyrirtækinu Borgun bakvið luktar dyr. Í kaupendahópnum voru ættingjar Bjarna.
Í gær birtist svo frétt í Fréttablaðinu þar sem samkeppnisaðili Kynnisferða ásakaði Bjarna um að hafa sleppt því að afnema undaþágu áætlunarferða hópbifreiða frá virðisaukaskattsgreiðslum vegna tengsla sinna við Kynnisferðir, en stærstu eigendur þess fyrirtækis eru faðir og föðurbróðir Bjarna. Í sama blaði ásakaði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, Bjarna um að láta „íslenska frændhygli“ þvælast fyrir sér þegar kæmi að því að kaupa gögn um aflandsfélög í eigu Íslendinga erlendis sem er talið að hafi stundað skattaundanskot.
Án þess að leggja neitt mat á trúverðugleika ofangreinda ásakana þá er pæling dagsins sú hvort umsvif fjölskyldu Bjarna séu ekki farin að þvælast óþægilega mikið fyrir því að hann geti tekið óumdeildar ákvarðanir um mikilvæg mál í starfi sínu sem fjármála- og efnahagsráðherra?