Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent í gærkvöldi með pompi og prakt. Tónlistarverðlaunin eru ágætis áminning á hvað þjóðin á mikið af ótrúlega hæfileikaríku tónlistarfólki á heimsmælikvarða og hve mikil gróska er í íslensku tónlistarlífi.
Það sama má í raun segja um aðra kima menningar og listar á Íslandi. Gróskan er allsráðandi, og þá gildir einu hvort um sé að ræða myndlist, ritlist eða kvikmyndagerð. Það sem margir kölluðu eitt sinn dútl, og gera sjálfsagt enn, skilar þjóðarbúinu mörgum milljörðum króna á hverju ári. Það er þetta með þessar skapandi atvinnugreinar.
Á meðan tónlistarfólk okkar vinnur hvern sigurinn á fætur öðrum á erlendri grundu, búa tónlistarkennarar og tónlistarskólar við kröpp kjör. Á meðan íslenskar kvikmyndir sanka að sér alþjóðlegum verðlaunum á kvikmyndahátíðum erlendis, eru fjárframlög til kvikmyndasjóðs skorin niður.
Svo virðist sem að stjórnmálamönnum finnist bara töff að tala um mikilvægi skapandi greina við réttar kjöraðstæður, til að mynda í aðdraganda kosninga eða í ræðu prúðbúinn við hátíðlegt tækifæri, en þegar kemur að efndunum, þá gerist því miður lítið.
Hér er pæling: Í ljósi mannauðsins sem við eigum hér á Íslandi í skapandi geiranum, það er geira menningar, listar og nýsköpunar, væri þá ekki pæling fyrir íslensk stjórnvöld að einblína meir á að gera geiranum hærra undir höfði, frekar en að hlaða endalaust undir rassinn á sægreifum og erlendum stóriðjufyrirtækjum?
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.