Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Bréfritari er oft að hugsa um bankastarfsemi (ekki alltaf þó!) og hvaða stöðu hún hefur í efnahagskerfi okkar mannanna. Ekki aðeins hér á landi heldur ekki síður alþjóðlega. Seðlabanki Íslands, íslensk stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn héldu framúrskarandi ráðstefnu í Hörpu, haustið 2011, þar sem bankastarfsemi var til umræðu, með áherslu á Ísland. Aðalathyglin var á Nóbelsverðlaunahafanum Paul Krugman. Það eftirminnilegasta sem hann sagði var að á Íslandi hefði verið „mesta brjálæðið af öllu því brjálæði sem ríkti á fjármálamörkuðum heimsins“. Það segir sína sögu um ástandið sem hér ríkti.
Sá sem stal senuninni var Simon Johnson, prófessor við MIT og fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Johnson þykir með skörpustu stærðfræðingum jarðarinnar, afburða snjall micro hagfræðingur. Á mannamáli er hann búinn að diffra og tegra töluvert í gegnum tíðina, og hefur unnið ítarlega greiningarvinnu allan sinn feril og markað sér orðspor sem fáir geta státað sig af á þeim vettvangi.
Johnson hefur talað um það opinberlega, eftir fjármálakreppun haustið 2008, að hann ætli sér að helga sig talinu um „blekkinguna“. Það er þeirri staðreynd að við mannfólkið séum búin að koma okkur upp fjármálakerfi sem byggir á blekkingunni um ríkisábyrgð á mistökum stjórnenda, alveg óháð því hvort hið opinbera á bankanna eða ekki. Þetta skapar ranga hvata, og sogar til sín fjármagn á ranga staði. Í erindi sínu fjallaði hann með dramatískum hætti um þessi mál, og lagði enn fremur mat á stöðu mála í Evrópu á þessum tíma, ekki síst hjá risabankanum Deutsche Bank, sem lánaði með ævintýralegum hætti til Íslands fyrir hrunið (var hann kannski að nefna þennan banka sérstaklega vegna þess hvernig hann hagaði sér gagnvart Íslandi?). Á þessum tímapunkti, árið 2011, var vaxandi spenna á fjármálamörkuðum vegna stöðu mála í Evrópu. Að lokum var leitað til þeirra sem alltaf bera ábyrgð þegar á reynir; skattgreiðenda, sem dældu þúsundum milljarða inn á fjármálamarkaði til að halda blekkingunni lifandi í gegnum Seðlabanka Evrópu.
Erindi Johnson má í heild sinni sjá hér, á vef Vísis.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.