Samkvæmt nýrri könnun sem Capacent á Íslandi gerði fyrir samtökin Já Ísland hefur stuðningur við aðild að ESB aldrei mælst meiri en nú í sambærilegri könnun. Enn er meirihluti gegn aðild, en munurinn á þessum fylkingum er innan við tíu prósent. Fátt nýtt hefur gerst í aðildarmálum undanfarin misseri, nema auðvitað tillaga Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að draga aðildarumsóknina til baka. Eins og flestir muna olli tillagan miklu uppnámi síðasta vetur og var mótmælt bæði innan þings og utan áður en hún dagaði uppi. Fram kom í mörgum skoðanakönnunum, nú síðast þeirri sem vitnað er til hér að framan, að meirihluti fólks er mótfallinn því að aðildarumsókn verði dregin til baka.
Ríkisstjórnin sem ætlaði sér að drepa Evrópusambandsaðildina endanlega reisti hana sjálf upp frá dauðum. Og þá er spurningin hvað verður gert nú? Í byrjun árs virtist hugur í ríkisstjórninni og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Bjarni Benediktsson töluðu allir eins og tillagan kæmi fyrir þingið á ný mjög fljótt. Nú er hins vegar mánuður liðinn, ekkert bólar á tillögunni og í uppfærðri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar stendur að tillagan verði lögð fram fyrir lok mars, ef af verður. Miðað við nýjustu kannanir virðist alveg ljóst að ef tillagan kemur fram aftur verða síst minni læti en síðast. Svo nú er spurningin hvort ríkisstjórnin leggur í þennan slag eða velur sér aðrar baráttur á vorþinginu? Víst er að af nógu er að taka...
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.