Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Leigjendur, sem ekki fengu miða í stærsta ríkis-happdrætti Íslandssögunnar sem skuldaniðurfellingar ríkisstjórnarinnar vissulega voru, eru ekki í neinum sérstökum málum. Leiga hefur hækkað ört að undanförnu, og viðbúið að hún muni halda áfram að hækka. Nær ómögulegt er fyrir fyrstu kaupendur að komast inn á markaðinn vegna ört hækkandi húsnæðisverðs, þannig að stór hluti þjóðarinnar er dæmdur til að vera á leigumarkaði um ókomin ár, á markaði þar sem ófremdarástand er við lýði. Fjöldi fólks býr í ósamþykktu húsnæði með litlum sem engum eldvörnum, og ástandið er látið nær óátalið því annars myndi hópur fólks enda á götunni sem yrði óþægilegt fyrir stjórnvöld að kljást við. Þá neyðast margir til að þröngva sér inn á ættingja, því launin eða bæturnar hrökkva ekki fyrir húsaleigu og framfærslu. Skuldaniðurfærsla stjórnvalda var keyrði í gegn á mettíma, en enn líður og bíður eftir úrræðum fyrir leigjendur. Hvenær ætla stjórnvöld að gefa stöðu leigjenda gaum? Hvað á þetta ástand að fá að vara lengi?
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.