Netnotkun Íslendinga jókst um tvö prósent milli áranna 2013 og 2014 og teljast nú 97 prósent Íslendinga til reglulegra netnotenda. Það er lang hæsta hlutfall netnotenda sem mælist í Evrópu, en í löndum Evrópusambandsins er meðaltalið um 75 prósent. Þetta kemur fram í tölum um tölvu- og netnotkun á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum sem birtust nýverið í Hagtíðindum Hagstofu Íslands.
Fartölvur og spjaldtölvur eru notaðar til að tengjast netinu hjá 92 prósent heimila en önnur þráðlaus tæki voru notuð til að tengjast netinu hjá 82 prósent heimila. Þar er snjallsíminn auðvitað í aðalhlutverki, en 59 prósent netnotenda nota snjallsíma til að tengjast netinu utan heimilis eða vinnustaðar. Það hlutverk var 47,5 prósent árið 2013 og því fjölgaði þeim um fimmtung á milli ára.
Verslun í gegnum netið jókst líka mjög mikið á milli ára, en tveir af hverjum þremur netnotendum hefur nú verslað í gegnum netið. Netverslun hefur aukist á kvikmyndum og tónlist sem og tölvum og jaðartækjum en hins vegar dróst netverslun verulega saman á milli ára á bókum, tímaritum og fjarskiptaþjónustu.